Innlent

Einn mót­mælandi hand­tekinn fyrir utan ríkis­stjórnar­fund

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Einn mótmælandi var handtekinn en hann hafði kveikt á blysi fyrir utan Ráðherrabústaðinn.
Einn mótmælandi var handtekinn en hann hafði kveikt á blysi fyrir utan Ráðherrabústaðinn. Vísir/Egill

Fámenn mótmæli voru fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu þar sem ríkisstjórnin kom saman til fundar í dag. Einn mótmælandi var handtekinn.

Tilefnið er sala á 22,5 prósenta eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, en á skiltum mótmælenda sem voru um tíu talsins, mátti sjá skilaboð á borð við „Bankarán alla virka daga frá 9-16“ og „Bjarna burt!“. Því er nokkuð ljóst að krafa mótmælendanna virðist vera sú að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segi af sér vegna bankasölunnar.

Lögregla hafði einhver afskipti af mótmælendum. Einn mótmælandi var handtekinn en hann hafði kveikt á blysi.

Ríkisstjórnarfundur dagsins er sá fyrsti síðan fyrir páska og jafnframt sá fyrsti frá því formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja greindu frá því að til stæði að leggja niður Bankasýslu ríkisins.

Mótmælendur lýstu óánægju sinni yfir meðal annars með skiltum sem þeir héldu á lofti.Vísir/Egill

Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að mótmælendur hefðu staðið fyrir ráðherrabíl og komið í veg fyrir að hann kæmist leiðar sinnar. Það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×