Umfjöllun og viðtöl: FH – Fram 4-2 | Rosa­legar loka­mínútur í Kapla­krika

Andri Már Eggertsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson skoraði eitt marka FH í kvöld.
Matthías Vilhjálmsson skoraði eitt marka FH í kvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

FH kom til baka undir lok leiks gegn Fram og vann á endanum 4-2 sigur á nýliðum Fram í 2. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. 

Fyrri hálfleikur var fjörugur og ballið byrjaði strax á 6. mínútu þar sem Guðmundur Magnússon fékk gott færi inn í teig FH en skot hans fór í varnarmann. Eftir það var FH allt í öllu í fimmtán mínútur en tókst ekki að skora þrátt fyrir nokkur álitleg færi.

Það dró til tíðinda þegar tæplega tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum. Alex Freyr Elísson tók bakfallsspyrnu á miðju línunni þar sem boltinn var að fara út af en sú spyrna skapaði mikinn vandræðagang í varnarlínu FH þar sem Ólafur Guðmundsson náði ekki að taka við boltanum og þaðan fór boltinn í gegnum Finn Orra beint á Albert Hafsteinsson sem renndi knettinum í netið og kom nýliðunum yfir.

Adam var ekki lengi paradís því innan við tveimur mínútum síðar jafnaði Matthías Vilhjálmsson með skoti fyrir utan teig þar sem Ólafur Íshólm Ólafsson, markmaður Fram, hefði átt að gera betur.

Lætin héldu áfram þegar Alexander Már Þorláksson kom Fram yfir á 26. mínútu. Tryggvi Snær Geirsson fór þar illa með Björn Daníel Sverrisson í návígi og komst upp hægri kantinn þar sem hann renndi boltanum á Alexander Má sem skoraði af stuttu færi.

Eftir þrjú mörk á sex mínútum róaðist leikurinn. FH var hættulegri aðilinn en Fram stóðst pressuna og var einu marki yfir í hálfleik.

Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH, gerði breytingu í hálfleik þar sem honum leist ekki á blikuna marki undir. Finnur Orri Margeirsson fór af velli og í hans stað kom Máni Austmann. Áherslu breytingar þar sem Máni fór á miðjuna og Logi Hrafn dró sig niður í þriggja manna varnarlínu.

Ólafur Guðmundsson jafnaði leikinn á 78. mínútu með skalla. Guðmundur Kristjánsson sendi boltann á óvaldaðan Steven Lennon í teignum sem fékk allan tíman í heiminum til að athafna sig og þakkaði fyrir með utanfótar snuddu sem Ólafur skallaði af stuttu færi.

FH hélt áfram að herja á Fram og skoruðu heimamenn tvö mörk undir lok leiks. Máni Austmann Hilmarsson skoraði þriðja mark FH eftir að hjólhestaspyrna Matthíasar Vilhjálmssonar fór í varnarmann og beint á Mána sem renndi boltanum í netið.

Fram veðjaði á að jafna leikinn með því að setja nánast allt liðið í sókn sem varð til þess að Vuk Oskar Dimitrijevic slapp í gegn og skoraði fjórða mark FH og þá flautaði Ívar Orri Kristjánsson til leiksloka. Fyrsti sigur FH á tímabilinu staðreynd

Af hverju vann FH?

Fram var marki yfir í hálfleik og ætlaði að verjast á teig í 45 mínútur. FH-ingar þurftu að vera þolinmóðir. Þeir sköpuðu sér fullt af færum sem á endanum skilaði sér í þremur mörkum í seinni hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Skiptingar FH heppnuðust vel. Bæði Máni Austmann og Vuk Oskar Dimitrijevic komu inn á og skoruðu.

FH skapaði sér fullt af færum og Matthías Vilhjálmsson var alltaf í baráttunni. Matthías skoraði fyrsta mark FH og í þriðja markinu var það hjólhestaspyrna hans sem varð til þess að Máni Austmann skoraði.

Hvað gekk illa?

FH var í þriggja manna vörn og bæði mörk Fram komu eftir klaufalega mistök í vörninni. Hvort menn voru linir eða óvanir að spila saman í þriggja manna vörn skal ég ekki segja. Finnur Orri Margeirsson átti stóran þátt í fyrsta marki Fram og var síðan tekinn af velli í hálfleik.

Framarar voru einfaldlega bensínlausir á lokamínútunum og ætluðu að múra fyrir markið sem mistókst.

Kristinn Freyr Sigurðsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma. Þar fór hann aðeins fram úr sér þar sem það var ekki mikið í kortunum á því augnabliki.

Hvað gerist næst?

Á baráttudegi verkalýðsins fer FH á Kópavogsvöll og mætir Breiðabliki klukkan 19:15.

Fram fær ÍA í heimsókn mánudaginn 2. maí klukkan 19:15.

Sigurbjörn: Þetta var þolinmæðisvinna

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari FH.Vísir/Vilhelm

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari FH, var sáttur með sigur í fyrsta heimaleik FH. 

„Við byrjuðum í þriggja manna vörn. Mörk Fram komu eftir einstaklingsmistök sérstaklega í fyrsta markinu. Mörk Fram voru ekki kerfinu að kenna heldur var þetta einbeitingarskortur. Við höfum áður verið í þriggja manna vörn og reyndum það í dag,“ sagði Sigurbjörn um þriggja manna vörn FH. 

Í fyrri hálfleik komu þrjú mörk á tæplega sex mínútum og fannst Sigurbirni ýmislegt ganga á þar.

„Mér fannst við spila vel og héldum boltanum en Fram refsaði okkur fyrir mistök í fyrsta markinu en við vorum fljótir að jafna. Stuttu seinna kom annað mark Fram sem gerist í fótbolta og þá voru þeir þéttir en á endanum náðum við að brjóta þá sem skilaði sér í sigri.“

Kristinn Freyr Sigurðsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt spjald seint í leiknum en Sigurbirni fannst það ósanngjarnt.

„Ég mundi ekki eftir því að hann hafi fengið gult en í seinna skiptið fór hann aldrei í maninn fannst mér,“ sagði Sigurbjörn að lokum og tók það fram að hann átti eftir að sjá gulu spjöldin aftur.

Jón Sveinsson: Þriggja manna vörn FH kom mér ekki á óvart

Jón Sveinsson, þjálfari Fram, var svekktur eftir tap í KaplakrikaVÍSIR/SKJÁSKOT

Jón Sveinsson, þjálfari Fram, var svekktur með seinni hálfleik Fram þar sem hans menn fóru ansi aftarlega á völlinn.

„Við skoruðum tvö góð mörk þar sem við komum okkur í góðar stöður. Við sáum glufur í varnarleik FH sem við nýttum okkur.“

„Það kom mér ekki á óvart að FH hafi verið í þriggja manna vörn þeir spiluðu það gegn okkur á undirbúningstímabilinu. Við ræddum þetta kerfi þeirra aðeins fyrir leik og reyndum að bregðast við því,“ sagði Jón um þriggja manna vörn FH.

Jón var svekktur með seinni hálfleik Fram þar sem hans menn hættu að spila boltanum og lögðust til baka.

„Við ætluðum að halda betur í boltann í seinni hálfleik en lögðumst allt of mikið til baka. Ég held að stress hafi spilað inn í og FH er með gott lið sem náði að ýta okkur aftar á völlinn sem setti okkur í vandræði,“ sagði Jón Sveinsson að lokum.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira