Bíó og sjónvarp

Mar­­got Robbie og Ryan Gosling verða Bar­bie og Ken

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Ástralska leikkonan Margot Robbie mun fara með hlutverk dúkkunnar heimsfrægu, Barbie.
Ástralska leikkonan Margot Robbie mun fara með hlutverk dúkkunnar heimsfrægu, Barbie. Warner Bros

Hin ljóshærða, sólbrúna og lífsglaða Barbie er væntanleg á hvíta tjaldið næsta sumar. Það er hin stórglæsilega ástralska leikkona Margot Robbie sem fer með hlutverk dúkkunnar heimsfrægu. Þá mun enginn annar en hjartaknúsarinn Ryan Gosling fara með hlutverk karldúkkunnar Ken.

Fyrsta mynd af Robbie í hlutverki Barbie leit dagsins ljós á CinemaCon hátíðinni í Las Vegas í gær. Þar kom jafnframt fram að myndin væri væntanleg í kvikmyndahús vestanhafs þann 21. júlí árið 2023.

Til hefur staðið að gera Hollywood kvikmynd um Barbie í mörg ár og nú hefur kvikmyndaframleiðandinn Warner Bros riðið á vaðið. Ótal teiknimyndir hafa verið gerðar um dúkkuna, en þetta er fyrsta leikna myndin.

Árið 2000 kom út Disney kvikmyndin Life-Size þar sem fyrirsætan Tyra Banks fór með hlutverk dúkku sem líktist Barbie. En þar var þó um að ræða svonefnda Eve-dúkku, en ekki hina einu sönnu Barbie.

Það hljóta flestir að geta tekið undir það að þau Margot Robbie og Ryan Gosling eru hin fullkomnu Barbie og Ken.Getty/Lia Toby-Frazer Harrison

Amy Schumer átti upphaflega að vera Barbie

Hugmyndin hefur verið í vinnslu í að minnsta kosti átta ár. Árið 2016 stóð til að grínleikkonan Amy Schumer færi með hlutverk Barbie. Hún sagði sig svo frá verkefninu ári síðar og var talið að það væri vegna listræns ágreinings.

Eftir það var hlutverkið orðað við leikkonuna Anne Hathaway, en það var þó aldrei staðfest. Það var svo á síðasta ári sem það var tilkynnt að Robbie yrði Barbie, enda vægast sagt fullkomin í hlutverkið.

Will Ferrel verður í myndinni

Aðrir leikarar í myndinni eru Kate McKinnon, Simu Liu, Issa Rae, Emma Mackey úr Sex Education, Michael Cera, og stórleikarinn Will Ferrel.

Leikstjóri er Greta Gerwig, en hún er einnig handritshöfundur ásamt eiginmanni sínum Noah Baumbach. Tökur eru þegar hafnar og fara þær fram í Bretlandi.

„Þetta vekur upp miklar nostalgíu tilfinningar og það eru margar spennandi leiðir til þess að nálgast þetta. Þegar fólk heyrir „Barbie“ þá telur það sig vita hvernig þessi mynd verður, en svo heyrir fólk að Greta Gerwig sé að skrifa og leikstýra og þá hugsa þau: „Ó ókei, þá hef ég ekki hugmynd um hvernig þetta verður“,“ sagði Robbie í viðtali við breska Vogue.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×