Innlent

Til­kynnt um tvær líkams­á­rásir í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla var kölluð út vegna manns sem hafði hrækt á öryggisvörð verslunar eftir að hafa reynt að stela tveimur lambalærum.
Lögregla var kölluð út vegna manns sem hafði hrækt á öryggisvörð verslunar eftir að hafa reynt að stela tveimur lambalærum. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út vegna tveggja líkamsárása á höfuðborgarsvæðinu í nótt.

Um klukkan 21 í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í Hafnarfirði þar sem maður hafi ráðist á nágranna sinn. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu, en hann er einnig grunaður um framleiðslu fíkniefna og var hald lagt á plöntur í hans eigu.

Um svipað leyti var tilkynnt um líkamsárás í Kópavogi. Þar hafði maður ráðist á konu og veitt henni áverka. „Konan var flutt á slysadeild til aðhlynningar, ekki vitað um áverka. Árásaraðili handtekinn skömmu síðar og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.“

Sparkaði niður hurð á veitingastað

Um klukkan 23 var tilkynnt um mann sem hafði sparkað niður hurð á veitingastað í hverfi 105 í Reykjavík. Segir í tilkynningu frá lögreglu að maðurinn hafi verið rólegur á vettvangi þegar lögreglu hafi borið að garði og hann iðrast gjörða sinna. Var skýrsla rituð um málið.

Um 23:30 var tilkynnt um þjófnað úr verslun í hverfi 108 í Reykjavík. Þar var maður í annarlegu ástandi stöðvaður þegar hann var að ganga út úr verslun með tvö lambalæri sem hann hafði ekki greitt fyrir. „Maðurinn hrækti í andlit öryggisvarðar sem hafði af honum afskipti og var maðurinn í tökum öryggisvarða er lögregla kom á vettvang. Maðurinn var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu,“ segir í dagbók lögreglu.

Braut rúðu

Um hálf fjögur í nótt voru afskipti höfð af manni í hverfi 107 í Reykjavík, en sá var óvelkominn í íbúð og vildi ekki yfirgefa hana. Þegar maðurinn fór henti hann hlutum og braut rúðu í húsinu. Var skýrsla rituð um málið.

Lögregla hafði sömuleiðis afskipti af nokkrum fjölda ökumanna sem stöðvaðir voru fyrir ýmis brot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×