Innlent

Þing­menn og ráð­herrar í hópi níu Ís­lendinga sem fá ekki að fara til Rúss­lands

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sergey Lavrov er utanríkisráðherra Rússlands.
Sergey Lavrov er utanríkisráðherra Rússlands. Vísir/AP

Níu Íslendingar eru komnir á svartan lista rússneskra stjórnvalda og hefur verið bannað að koma til Rússlands. Ráðherrar, þingmenn og fjölmiðlafólk er meðal aðila á listanum.

Rússneska utanríkisráðuneytið birti yfirlýsinguna í gær og þar kemur fram að þar sem Íslendingar hafi tekið þátt í þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins gegn Rússum þá hafi verið gripið til þeirra aðgerða að setja níu einstaklinga á bannlista.

Í samtali við fréttastofu segir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, að ráðuneytið hafi engar upplýsingar um málið umfram það sem komið hefur fram í fjölmiðlum en muni bregðast við ef á reynir.

Í yfirlýsingu Rússa kemur fram að í hópi níumenninganna séu þingmenn, ráðherrar, aðilar úr viðskipta- og menntasamfélaginu sem og fjölmiðlafólk auk ákveðinna aðila sem hafi tjáð sig á neikvæðan hátt um Rússlands og tekið þátt í að móta tillögur gegn Rússlandi.

Þá kemur einnig fram í yfirlýsingunni að sextán Norðmönnum, þremur Færeyingum og þremur frá Grænlandi hafi verið bannað að koma til Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×