Fótbolti

María hafði betur í Íslendingaslag ensku úrvalsdeildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
María Þórsidóttir með boltann í leik dagsins.
María Þórsidóttir með boltann í leik dagsins. Charlotte Tattersall/Getty Images

María Þórisdóttir og stöllur hennar í Manchester United unnu sannfærandi 3-0 sigur er liðið tók á móti Dagnýju Brynjarsdóttur og liðsfélögum hennar í West Ham í ensku úrvalsdeild kvenna í fótbolta í dag.

María og Dagný léku báðar allan leikinn í dag, en það var Martha Thomas sem kom heimakonum í Manchester United í forystu eftir rétt rúmlega tíu mínútna leik.

Heimakonur fóru svo með 2-0 forystu inn í hálfleikinn eftir að Grace Fisk varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 20. mínútu.

Það var svo Leah Galton sem gulltryggði sigur United með marki snemma í síðari hálfleik. Lokatölur urðu því 3-0, United í vil, en sigurinn lyfti liðinu upp í þriðja sæti deildarinnar.

Manchester United er með 42 stig þegar liðið á aðeins einn leik eftir og er í harðri baráttu við nágranna sína í Manchester City um þriðja sætið sem gefur þátttökurétt í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

Dagný og stöllur hennar sitja hins vegar í sjötta sæti deildarinnar með 27 stig og sigla lygnan sjó um miðja deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×