Skoðun

Að efla aldurs­vænt sam­fé­lag

Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir skrifar

Hvernig er viðhorf þitt gagnvart öldruðum? Hefur þú leitt hugann að því?

Hefur þú tekið eftir aldursfordómum í þínu nærumhverfi? Ertu að hugsa um að hætta við að lesa þessa grein af því þú ert ekki aldraður?

Hér á landi er sá hópur einstaklinga sem hefur náð 67 ára aldri og hærra skilgreindur sem aldraðir, hópur fólks sem stækkar og stækkar samkvæmt núverandi þróun. Mannfjöldaspár sýna að breytt aldurssamsetning er meðal þjóða, þar sem lífslíkur fólks eru að aukast og dregist hefur úr fæðingartíðni. Öldruðum mun fjölga verulega í vestrænum samfélögum. Með þessum breytingum fylgja áskoranir sem þarf að bregðast við til að efla aldursvænt samfélag.

Aldraðir endurspegla fjölbreyttan hóp, sem hefur ólíkar skoðanir og bakgrunn, fjölbreytt áhugamál og víðtæka reynslu. En þessi hópur mætir stundum aldursfordómum í nútímasamfélagi. Hætt er við neikvæðum staðalímyndum og mismunun á grundvelli aldurs. Það er brýn þörf að bregðast við og vinna að aldursvænu samfélagi með breyttu viðhorfi.

Eldri fullorðnir einstaklingar búa yfir dýrmætri þekkingu og reynslu. Hegðun okkar og viðhorf ætti alltaf að endurspegla tækifærin og þau jákvæðu áhrif af því að fólk hafi sjálfstæði, vilja og getu til að taka virkan þátt í samfélaginu. Samstaða ætti að ríkja um það að fólk geti átt gefandi líf alla ævi.

Hver og einn getur litið í eigin barm og hugleitt hvort hann leyfi aldursfordómum að viðgangast í sínu nærumhverfi. En ríkari ábyrgð liggur í forystu og stjórnun hjá leiðtogum samfélagsins. Horfa þarf til styrkleika, mikilvægi framlags og þátttöku eldra fólks sem ávinning fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.

Höfundur er nemi í öldrunarþjónustu, viðbótardiplómu á meistarastigi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×