Skoðun

Betri skóli fyrir börn

Arnór Heiðarsson skrifar

Hvernig væri það ef við myndum prófa að sleppa því að hafa hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annað fagfólk í sjúkrahúsum landsins og keyra nær eingöngu á heimilislæknum? Svarið við þessari spurningu er frekar einfalt. Það myndi aldrei virka og ástæðurnar fyrir því eru augljósar.

Þá spyr ég samt. Af hverju keyrum við grunnskólana nær eingöngu á kennurum? Kennarar eru frábærir og það þekki ég vel af persónulegri reynslu. Í skólastofum landsins er unnið frábært starf kennara sem vinna ötullega að því að veita börnum landsins fyrsta flokks menntun. Kennarar eru sérfræðingar í að vekja áhuga, miðla þekkingu, kenna gagnrýna hugsun og mennta nemendur með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Kennarar eru fagfólk í hæsta gæðaflokki og það er full vinna að vera kennari.

Kennarar eru ein stétt fagfólks og jafn frábærir og þeir eru þá geta þeir ekki gert allt. Til að mæta fjölbreyttum þörfum barna þarf að stórauka þátt annarra fagstétta í skólakerfinu. Okkur vantar miklu fleiri þroskaþjálfa, sálfræðinga, talmeinafræðinga, félagsráðgjafa, námsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og aðrar öflugar fagstéttir til að koma að vinna á gólfinu í grunnskólunum. Með því að fá fólk með þessa fagþekkingu í skólana getum við komið mun betur til móts við börn.

Hlutverk skóla er alltaf að verða fjölbreyttara og stærra. Skólar eru ekki lengur bara menntastofnanir heldur eru þeir orðnir að miðjunni í velferð barna og það er því mikilvægt að fjölbreyttari fagþekking komi inn í skólana. Með því aukum við líkurnar á snemmtækri íhlutun til muna, við náum að koma til móts við þarfir barna fyrr og minnkum því líkurnar á þyngri og dýrari inngripum seinna meir.

Að fjárfesta í börnum er besta fjárfesting sem til er. Það hefur sýnt sig að það margborgar sig. Við spörum samfélaginu háar fjárhæðir og það sem meira máli skiptir, við skilum fleiri tilbúnum einstaklingum út í samfélagið sem eru virkir þátttakendur í því.

Höfundur, sem er grunnskólakennari og starfar sem aðstoðarskólastjóri, skipar 14. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×