Innlent

Söguleg skóflustunga í beinu framhaldi af útskrift

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þær voru ófár skóflurnar á lofti þegar skóflustunga var tekin að nýju húsnæði sem til stendur að taka í notkun um áramótin.
Þær voru ófár skóflurnar á lofti þegar skóflustunga var tekin að nýju húsnæði sem til stendur að taka í notkun um áramótin.

Íbúar á Flateyri og nemendur Lýðskólans á Flateyri tóku í dag sameiginlega fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu Nemendagarða Lýðskólans. Þetta kemur fram í skeyti frá Runólfi Ágústssyni skólastjóra.

Til stendur að taka húsið í notkun um næstu áramót. Skólinn útskrifaði í dag jafnframt fjórða árgang skólans í Samkomuhúsinu á Flateyri. Að athöfn lokinni gengu starfsfólk, nemendur og gestir út að Hafnarstræti 29 og tóku sameiginlega fyrstu skóflustunguna húsinu.

Þetta er fyrsta íbúðarhúsið sem byggt er í þorpinu í 25 ár. Um er að ræða fjórtán stúdíóíbúðir fyrir nemendur skólans. Yrki artiktektar hönnuðu húsið með það að markmiði að nýbyggingin félli vel að núverandi götumynd Hafnarstrætis og yrði hluti af ásýnd þorpsins. Húsið er reist úr steyptum einingum frá Steypustöðinni og einangrað og klætt að utan með koparlitaðri álbáru.

Svona mun húsið koma til með að líta út.Yrki arkitektar

Þrefalt fleiri hafa að jafnaði sótt um skólavist við Lýðskólann en hægt hefur verið að taka á móti og hefur skortur á húsnæði staðið í vegi fyrir fjölgun nemenda. Markmiðið er að 40 nemendur geti stundað nám við skólann en núverandi nemendafjöldi er um 30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×