„Mér finnst við hafa verið rændir, það er mín tilfinning. Við vorum 2-0 yfir og Maggi fær rautt spjald hjá okkur. Hann fær gult spjald í fyrsta brotinu sínu í leiknum og ég held að hann fái gult spjald í þriðja brotinu sínu í leiknum. Mér fannst dómgæslan hafa alltof mikil áhrif hérna í dag og verða aðalatriðið.
Það er brotið á leikmanni hjá okkur alveg beint fyrir framan nefið á aðstoðardómaranum þegar það er að koma fyrirgjöf og svo kemur skot í kjölfarið af því þar sem það stendur maður í rangstöðu fyrir markmanninum okkar. Mér fannst þessi atriði hafa rosaleg áhrif á leikinn.
Markmannsþjálfarinn okkar fékk rautt fyrir að segja að það stóð maður í rangstöðunni, það má víst ekki segja það. Þannig að ég hef mína skoðun varðandi þetta og ætla að hafa hana. Mér fannst við sýna karakter í lokin.
Að spila manni færri í 60 mínútur eða meira er gríðarlega erfitt. Ég er stoltur af mínum mönnum að hafa þó fengið stig úr leiknum,“ sagði Siggi Raggi þungur í bragði.
Heimamenn voru 2-0 yfir í hálfleik en höfðu misst fyrirliða sinn af velli með rautt spjald. Þeir ætluðu að verja markið í þeim síðari en það gekk illa.
„Fyrst og fremst ætluðum við að verja okkar mark. Við vorum 2-0 yfir og manni færri. Þá leggjumst við aftar og gefum eftir ákveðin svæði á vellinum. Mörkin sem við fengum á okkur, eða allavega eitt mark fannst mér ekki löglega skorað. Það er bara mín skoðun.
Þegar þú lendir síðan undir þá þarftu virkilega að sýna karakter þegar þú ert búinn að vera að hlaupa og berjast manni færri í nærri 60 mínútur. Það er það sem ég er ánægður með,“ sagði Siggi Raggi og í sömu andrá féll auglýsingaskiltið á bakið á honum.
Keflvíkingar eru með 1 stig eftir 5 leiki spilaða í deildinni. Siggi Raggi telur möguleika á því að liðið styrki sig fyrir framhaldið.
„Það er aldrei að vita. Það er ennþá tími til þess að styrkja leikmannahópinn okkar. Mér fannst við eiga að fá miklu meira út úr þessum leik í dag og vera með hann í hendi okkar þegar við fáum rautt spjald sem mér fannst ‚soft‘ tvö gul spjöld. Það skemmdi svolítið leikinn,“ sagði Siggi Raggi að lokum.