Skoðun

Þegar ég flutti úr Vestur­bænum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Ég er fædd og uppalin í Vesturbænum og elska Vesturbæinn heitt, svo heitt að þegar ég flutti að heiman lagði ég mig fram við búa helst þar ef ég bjó á Íslandi. Ég var því ekki alveg viss með það að flytja í 104 þegar ég keypti mína fyrstu íbúð fyrir sjö árum.

Næstu íbúð keyptum við kærastinn minn líka í 104 svo síðustu ár hef ég lært að elska Laugardalinn, Langholtið, Sundin og Vogana. Það hefur verið frekar auðvelt því hverfið mitt á svo margt sameiginlegt með Vesturbænum – en hvað þá helst? Jú, þessi hverfi byggðust upp á þeim tíma þegar hverfi Reykjavíkur voru skipulögð út frá fólki en ekki bílum.

Tvær kjörbúðir í göngufæri

Þetta þýðir að það er dásamlegt að fara um hverfin gangandi, hjólandi, hlaupandi eða á hlaupahjóli. Þetta eru mannvæn, sjálfbær og lifandi hverfi í nálægð við falleg útivistarsvæði. Þá eru hverfin vel tengd almenningssamgöngum, sem ég hef alltaf notað mikið.

Nærþjónusta er í göngufæri fjölmargra íbúa. Sem dæmi get ég gengið í tvær kjörbúðir en líka í ísbúð, sundlaug, bakarí, á veitingastað og saumastofu. Glæsibær og Skeifan eru svo í næsta nágrenni með alla sína fjölbreyttu þjónustu, þótt Skeifan sé vissulega ekki sú þægilegasta til að fara um, hvort sem þú ert á bíl, gangandi eða hjólandi. Það mun þó breytast á næstu árum nái uppbyggingaráform borgarinnar á svæðinu fram að ganga.

Skýr sýn Viðreisnar í Reykjavík um lifandi hverfi

Viðreisn í Reykjavík hefur skýra sýn um hvernig hverfi við viljum skipuleggja og byggja í borginni okkar. Við viljum byggja sjálfbær, lifandi hverfi þar sem er þægilegt fyrir íbúana að fara um gangandi, hjólandi, hlaupandi og á hlaupahjólum. Hverfi sem eru byggð fyrir fólk en ekki bíla og eru vel tengd strætó og síðar Borgarlínu.

Orð Hrafnkels Proppé, skipulagsfræðings og fyrrverandi verkefnastjóra Borgarlínunnar, í viðtali við Tímavélina, kosningablað Framtíðarinnar á Seltjarnarnesi, kjarna í raun vel þessa sýn okkar í Viðreisn. Ég fæ því að lokum að vitna í þau orð:

„Þó að einkabíllinn hafi auðvitað ennþá yfirhöndina og margt fólk þurfi einkabíl til þess að bera heim bjargir og koma börnum í leikskóla þá eru hjólið, fæturnir og svona kvikir samgöngumátar eins og rafmagnshlaupahjól alltaf að verða stærri og stærri. En lykillinn að því að fólk noti almenningssamgöngur og virka samgöngumáta er einmitt að við þéttum byggð og að við skipuleggjum byggð sem ýtir undir að við mætum fólki sem er á röltinu með kaffibolla í hendinni.“

Höfundur er Vesturbæingur, íbúi í 104 og frambjóðandi Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×