Á heimasíðu Eflingar kemur fram að framkvæmdastjóri, eða staðgengill hans, muni upplýsa stjórn félagsins í samráði við formanninn Sólveigu Önnu um gang starfa og verkefna undir nýju skipulagi. Segir að vænta megi að það muni koma til frekari aðlagana, líkt og það er orðað.
Ennfremur segir að í stefnuskrá lista Sólveigar Önnu hafi verið rætt um nauðsyn þess að endurskoða starfslýsingar og meta mönnunarþörf skrifstofunnar auk annarra endurbóta í skipulagi starfsmannamála.
Þá hafi listinn viljað taka upp nýtt, gagnsætt launakerfi. „Safnast hefur upp ósamræmi, ógagnsæi og úreltar venjur í ráðningarkjörum starfsfólks. Þetta hefur hamlað starfsemi félagsins og er að mati stjórnar tímabært að taka á því,“ segir á heimasíðunni.
Félagið auglýsti um páskana eftir nýjum framkvæmdastjóra félagsins, fjármálastjóra og í fjölda annarra starfa á skrifstofu félagsins.
Alls var 42 á skrifstofunni sagt upp í hópuppsögn í síðasta mánuði.