Skoðun

Tvennt í boði í borginni

Diljá Mist Einarsdóttir og Hildur Sverrisdóttir skrifa

Á morgun, laugardag, gefst borgarbúum færi á því að velja það hvernig borginni okkar er stýrt næstu fjögur árin.

Reykjavík er að mörgu leyti frábær og skemmtileg borg. Hún er iðandi af mannlífi og menningu og ósnortin náttúran er skammt undan. Skíðasvæði í túnfætinum, laxveiðiá í miðju þéttbýlinu, golfvöllur innan borgarmarka og þéttofnar reiðleiðir á útjaðrinum eru aðeins nokkur sérkenni borgarinnar okkar. Reykjavík er einstök á heimsvísu.

Það er hins vegar hökt í borginni. Borgarbúar eru óánægðir með þjónustuna. Framkvæmdir standa á sér. Rekstur borgarinnar er losaralegur, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Vandræðagangur í leikskólamálum veldur því að tæplega þúsund börn sitja föst á biðlistum um alla borg. Þrifnaði á götum og torgum er ábótavant. Skattar og álögur eru í hæstu hæðum.

Borgin okkar á skilið að nýtt fólk taki við stjórnartaumunum. Sjálfstæðismenn í Reykjavík boða Reykjavík þar sem forgangsraðað er í þágu grunnþjónustu við borgarbúa. Borg þar sem reksturinn er tekinn föstum tökum. Borg sem stendur með íbúum sínum og atvinnurekendum þegar þau finna fyrir verðhækkunum á öllum vígstöðvum, frystir fasteignagjöld þannig hægt sé að koma böndum á hækkandi útgjöld heimilanna. Borg sem tekur utan um öflugt atvinnulíf í stað þess að leggja stein í götu þess.

Reykvíkingar ganga að kjörkössunum á laugardag og valið er skýrt. Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er atkvæði með breyttri og betri stjórn á borginni. Atkvæði greitt öðrum er atkvæði með áframhaldandi losarabrag. Það er bara tvennt í boði.

Kjósum aðgerðir í stað orða. Kjósum Sjálfstæðisflokkinn.

Höfundar eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×