Innlent

Skvetti bjór og byrjaði að berja dyra­vörð

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla þurfti að sinna verkefnum af ýmsum toga í gærkvöldi og í nótt. Myndin er úr safni.
Lögregla þurfti að sinna verkefnum af ýmsum toga í gærkvöldi og í nótt. Myndin er úr safni. Vísir/Kolbeinn Tumi

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út eftir tilkynnt var um konu sem hafði ráðist á dyravörð veitingastaðar í miðborg Reykjavíkur skömmu fyrir klukkan 22 í gærkvöldi.

Í dagbók lögreglu segir að konunni hafði verið vísað út af veitingastað, hafi svo komið til baka og skvett bjór yfir dyravörð og byrjað að berja hann með veski sínu. „Konan var færð í tök og var haldið af dyraverði þar til lögregla kom. Konan var róleg er lögregla kom og var henni sagt að yfirgefa vettvang sem hún gerði.“

Í dagbók lögreglu segir einnig frá því að tilkynnt hafi verið um slys í miðborg Reykjavíkur skömmu fyrir miðnætti. Þar segir að konan hafi dottið um rafmagnshlaupahjól þar sem það hafi legið á gangstétt. Fékk konan skurð fyrir ofan auga og var hún flutt með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðadeild.

Steig á glerbrot

Um klukkan eitt í nótt var tilkynnt um slys á veitingastað í miðborginni. Ungur maður hafði þar stigið á glerbrot sem fór í gegnum skó hans og sat fast í fæti hans. Sjúkrabíll var sendur á vettvang þar sem og var glerbrotið fjarlægt og maðurinn síðan fluttur til aðhlynningar á bráðadeild Landspítalans.

Skömmu fyrir klukkan 20 var tilkynnt um líkamsárás á veitingastað í hverfi 111 í Reykjavík. Þar var maður kýldur í andlitið og missti við það tönn. Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði og vildi sá sem fyrir árásinni varð ekki fá neina aðstoð, að því er segir í tilkynningunni frá lögreglu.

Lögregla stöðvaði einnig nokkra ökumenn í umdæminu bæði í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×