Körfubolti

Miðasala hefst í hádegi og Króksarar fá þriðjung

Sindri Sverrisson skrifar
Það er allt á suðupunkti í einvígi Vals og Tindastóls um Íslandsmeistaratitilinn.
Það er allt á suðupunkti í einvígi Vals og Tindastóls um Íslandsmeistaratitilinn. vísir/bára

Ljóst er að mun færri komast að en vilja á síðasta leik körfuboltatímabilsins á Íslandi, oddaleik Vals og Tindastóls. Miðasala á leikinn hefst í hádeginu.

Valsmenn ákváðu að miðasalan færi ekki fram með rafrænum hætti og óttuðust samkvæmt upplýsingum frá Val að miðasöluappið Stubbur sem jafnan er notað myndi ekki höndla álagið vegna hinnar miklu eftirspurnar. 

Þess í stað ákvað körfuknattleiksdeild Vals að leyfa Sauðkrækingum að sjá um söluna á þriðjungi miða sem í boði eru, eða um 500 miðum, og Valsmenn munu svo sjálfir selja sína 1.000 miða á Hlíðarenda. Origo-höllin rúmar 1.500 áhorfendur.

Þeir sem vilja kaupa miða á svæði Vals þurfa því að mæta á Hlíðarenda, og vera með Stubbs-appið, og hefst miðasalan klukkan 12.

Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, sagði við Vísi að ákvörðun yrði tekin í kvöld um það hvernig sölunni á 500 miðum Skagfirðinga yrði háttað.

Uppfært kl. 12.15: Samkvæmt upplýsingum frá Stubbi er ástæðan fyrir því að miðarnir fóru ekki í hefðbundna sölu í appinu sú að Valsmenn vildu leitast við að tryggja að stuðningsmenn Vals fengju 2/3 hluta miða sem í boði voru, sem ekki er hægt að tryggja í miðasöluappinu. Svartími í appinu hafi vissulega lengst vegna álags fyrir leik fjögur í einvíginu, á Sauðárkróki í gær, en þjónustan ekki hrunið.

Tilkynning Vals:

Miðasala fyrir stuðningsfólk Vals á oddaleikinn!

Miðasala fyrir stuðningsfólk Vals hefst í Valshöllinni kl. 12 í dag. Fólk er beðið um að hafa Stubb appið tengt við símanúmer sem miðar verða sendir á. Allir miðar eru seldir á 2.500 kr. en frítt er fyrir yngri iðkendur Vals sem skrá sig eins og á aðra leiki. Það skal ítrekað að þetta er miðasala fyrir stuðningsfólk Vals.

Miðasala stuðningsfólks Tindastóls er á ábyrgð forsvarsaðila Tindastóls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×