Bjartmar hefur verið virkur á Facebook-hópnum „Hjóladót og fl. Tapað, fundið eða stolið“ þar sem hann aðstoðar fólk sem hefur lent í hjólaþjófnaði. Tala hjóla sem Bjartmar hefur fundið er að hans sögn, „skuggalega há“.
Uppsöfnuð þreyta
Í samtali við fréttastofu segir Bjartmar að hann sé óviss hvort hann sé að hætta tímabundið eða fyrir fullt og allt.
„Eins og er þá er komin sú staða hjá mér að ég þarf virkilega að einbeita mér að öðru. Það eru aðrir hlutir sem hafa setið lengi á hakanum og maður var búinn að hunsa þreytuna sem kemur. Þetta er uppsafnað, svo allt í einu klessir maður bara svolítið á vegg og maður þarf aðeins að róa sig í þessu,“ segir Bjartmar.
Alltaf að brasa
Þrátt fyrir að hann hafi ekki alla daga verið í því að finna einstaka hjól, þá var hann alltaf á brasi í kringum starfið.
„Þá er ég í allskonar samskiptum við allskonar fólk og að þvælast hingað og þvælast þangað, að skoða þetta og skoða hitt. Þannig þetta er svona lúmskt mikil vinna sem fylgir þessu. Það var kominn tími til að koma aðeins upp á yfirborðið og anda smá.“
Ástæða er til að rifja upp viðtal sem fréttastofa tók við Bjartmar að segja má á hátindi ferils hans síðasta sumar, þegar hann réðst í sérstakar björgunaraðgerðir í góðum hópi fólks:
Þurfa að fara eftir bókinni
Litið er á reiðhjólaþjófnað sem smáglæp en verð hjólanna getur numið allt að hálfri milljón króna. Hann gagnrýnir lögregluna fyrir að gera lítið í þessum málaflokki.
„Það sem löggan sagði einu sinni við mig var: „Við vitum nákvæmlega hvað er í gangi, en við þurfum að fara eftir bókinni og sanna mál okkar,“ en á móti hef ég bent þeim á að ef þeir eru virkir á síðunni hjá mér og skoða hvað er verið að leita að, þá geta þeir oft fundið þá hluti á þessum algengustu stöðum, þar sem hjól eru iðulega að finnast.“