Lærimeyjar Elísabetar Gunnarsdóttur unnu stórsigur á AIK, 5-1. Íslensku ungstirnin Amanda Andradóttir og Emelía Óskarsdóttir hófu leik á varamannabekknum en Amanda kom inn af bekknum í stöðunni 2-1 á 71.mínútu og Emelía lék síðustu fimm mínútur leiksins.
Hlín Eiríksdóttir bjargaði stigi fyrir Pitea gegn Hacken en hún jafnaði leikinn 1-1 á 86.mínútu með marki úr vítaspyrnu. Diljá Ýr Zomers og Agla María Albertsdóttir hófu leik á varamannabekk Hacken en Agla María lék síðustu tíu mínútur leiksins.
Þá lék Berglind Rós Ágústsdóttir allan leikinn fyrir Örebro í 0-1 tapi fyrir Vittsjö.
Í Noregi var Ingibjörg Sigurðardóttir á sínum stað í vörn Valerenga sem gerði sér lítið fyrir og vann átta marka sigur á Arna-Bjornar, 9-1.
Svava Rós Guðmundsdóttir var í byrjunarliði Brann og lék fyrstu 80 mínúturnar í 1-2 sigri á Kolbotn. Berglind Björg Þorvaldsdóttir var ekki í leikmannahópi Brann.
Þá lék Selma Sól Magnúsdóttir síðasta hálftímann fyrir Rosenborg sem vann 1-3 sigur á Avaldsnes.