Þorleifur fékk fyrir rúmri viku fyrsta tækifæri sitt í byrjunarliði Houston Dynamo og skoraði svo magnað mark í nótt í öðrum byrjunarliðsleik sínum, í 3-0 sigri gegn LA Galaxy í Kaliforníu.
Markið má sjá hér að neðan en Þorleifur skoraði það á 62. mínútu eftir að hafa tekið þreföld skæri til að leika á varnarmann Galaxy.
Þorleifur var að vonum ánægður með sitt fyrsta mark í bestu deild Bandaríkjanna og fagnaði með því að fara úr treyjunni svo hann uppskar gult spjald.
Undir Houston-treyjunni var Þorleifur í bol sem á stóð: „Fyrir ömmu Siggu,“ og minntist þar með ömmu sinnar, Sigríðar Svanhildar Magnúsdóttur Snæland, sem lést fyrir sjö árum.
Bandarískir miðlar leika sér með nafn Þorleifs í lýsingum á markinu hans og tala um Þórshamar og þrumur, og á Twitter-síðu Houston Dynamo segir að „sonur Óðins“ sé mættur í MLS-deildina.
Í sigti Arnars landsliðsþjálfara?
Houston Dymamo valdi Þorleif í nýliðavalinu í janúar en hann hafði vakið mikla athygli með frammistöðu sinni fyrir Duke í bandaríska háskólaboltanum.
Þorleifur er uppalinn hjá Breiðabliki og lék einn leik með liðinu í Pepsi Max-deildinni í fyrra, sem og sex leiki í Lengjudeildinni fyrir Víking Ólafsvík.
Þessi 21 árs gamli sóknarmaður er væntanlega á lista hjá Arnari Þór Viðarssyni landsliðsþjálfara yfir þá sem koma til greina þegar landsliðshópur verður valinn á miðvikudaginn fyrir komandi leiki í Þjóðadeildinni gegn Ísrael og Albaníu, og vináttulandsleik við San Marínó. Landsleikjatörnin hefst á útileik gegn Ísrael 2. júní.