Handbolti

Haukur og Sigvaldi mæta Veszprém í Köln

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson er tveimur sigrum frá því að verða Evrópumeistari.
Haukur Þrastarson er tveimur sigrum frá því að verða Evrópumeistari. vísir/getty

Íslendingalið Kielce mætir Veszprém í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta. Dregið var í morgun.

Venju samkvæmt fer úrslitahelgi Meistaradeildarinnar fram í Lanxess-höllinni í Köln. Undanúrslitin fara fram 18. júní og brons- og úrslitaleikurinn degi síðar.

Eitt Íslendingalið var í pottinum þegar dregið var í undanúrslitin í morgun, Póllandsmeistarar Kielce sem þeir Haukur Þrastarson og Sigvaldi Guðjónsson leika með.

Kielce dróst gegn ungverska stórliðinu Veszprém. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Evrópumeistarar síðustu tveggja ára, Barcelona og Kiel. Börsungar, með Aron Pálmarsson, urðu Evrópumeistarar í fyrra eftir stórsigur á Álaborg í úrslitaleiknum, 36-23.

Haukur og Sigvaldi hafa hvorugur spilað í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar. Og raunar leikur mikill vafi á því að Sigvaldi geti verið með þá en hann hefur ekkert spilað með Kielce frá því á EM vegna meiðsla. Haukur er hins vegar kominn aftur á ferðina eftir löng og erfið meiðsli.

Kielce hefur einu sinni orðið Evrópumeistari, 2016. Pólska liðið vann þá ævintýralegan sigur á Veszprém eftir vítakastkeppni. Talant Dujshebaev var þá þjálfari Kielce eins og nú. Hann gerði Ciudad Real einnig að Evrópumeisturum 2005, 2008 og 2009. Ólafur Stefánsson var í lykilhlutverki í þeim meistaraliðum.

Fjórir Íslendingar hafa unnið Meistaradeildina í handbolta: Ólafur Stefánsson, Aron Pálmarsson, Ólafur Gústafsson og Guðjón Valur Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×