Skoðun

Börnin á götuna í Grikklandi?

Áslaug Inga Kristinsdóttir skrifar

Íslensk stjórnvöld stefna á að vísa tæplega 300 umsækjendum um alþjóðlega vernd brott á næstunni. Til stendur að senda þónokkra til Grikklands, þar sem aðstæður eru skelfilegar fyrir flóttafólk. Eins hefur fjöldi þeirra sem nú á að vísa brott dvalið á Íslandi í yfir tvö ár og fest hér rætur. Í hópnum sem ætlað er að senda úr landi var m.a. ófrísk kona sem komin er átta mánuði á leið en náði lögmaður hennar að forða henni frá brottvísun með læknisvottorði samkvæmt nýjustu fréttum.

Stjórnvöld vita að aðstæðurnar í Grikklandi eru með öllu óboðlegar. Stór hluti þeirra sem til stendur að vísa úr landi mun ekki njóta grundvallarmannréttinda eins og húsaskjól og atvinnu. Dómsmálaráðherra kom fram í fréttum fyrir skömmu og sagði að fólkið hefði dvalið hér ólöglega vegna þess að það neitaði að fara í PCR próf, sem var forsenda fyrir því að það yrði sent úr landi.

Þingmaður Viðreisnar hafði í vikunni orð á því að stór hluti hópsins myndi enda á götunni í Grikklandi í aðstæðum sem eru algjörlega óboðlegar. 

Spurninganna sem við þyrftum að spyrja okkur væru einfaldlega þessar: „Myndum við sjálf vilja láta senda okkur út á guð og gaddinn í Grikklandi þar sem sáralitla aðstoð er að fá?  Myndum við sjálf vilja að börnin okkar yrðu rifin upp úr öruggu umhverfi og send í aðstæður þar sem óöryggið er algjört og varla húsaskjól að hafa?“

Sagði hann að við myndum ekki samþykkja það og spurði hvers vegna í ósköpum við værum þá tilbúin að senda annarra manna börn og fjölskyldur í aðstæður sem við myndum aldrei sjálf fara í. Að lokum nefndi hann að það hvíli ekki skylda á okkur að vísa fólkinu frá Íslandi. Það eina sem þyrfti til væri pólitískur vilji til að gera það ekki.

Flóttafólk á Íslandi, ásamt Solaris og No Borders, boða til mótmæla gegn þessum fyrirhuguðu brottvísunum og biður þig um að koma og sýna þeim stuðning.

Sýnum samstöðu með fólkinu á Austurvelli næstkomandi laugardag klukkan 16:15!

Höfundur er Reykvíkingur.




Skoðun

Sjá meira


×