Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, kynnti aðgerðirnar í dag. Þar sagði hann að reiknað væri með að skatturinn gæti skilað ríkissjóði Bretlands um fimm milljörðum punda á næstu tólf árum.
Skatturinn mun smám saman leggjast af eftir því sem orkuverð, sem er í hæstu hæðum, lækkar.
Hvert heimili í Bretland mun fá 400 pund, um 65 þúsund krónur, í afslátt af orkureikningnum. Upphæðin verður hærri fyrir tekjuminni heimili.
Ríkisstjórn Boris Johnson forsætisráðherra hefur hingað til verið mótfalin því að leggja svokallaðan hvalrekaskatt á hagnað breskra orkufyrirtækja, með þeim rökum að það myndi draga úr fjárfestingu þeirra.
Sagði Sunak að inn í hinum nýja skatti væri innbyggður hvati fyrir orkufyrirtækin að endurfjárfesta hagnaðinum. Því meira sem fyrirtækin endurfjárfesta, því minna þurfa þau að greiða í hvalrekaskatt.