Handbolti

Næsti áfangastaður Lovísu liggur fyrir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára hefur Lovísa Thompson verið í hópi fremstu handboltakvenna Íslands um árabil.
Þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára hefur Lovísa Thompson verið í hópi fremstu handboltakvenna Íslands um árabil. vísir/Hulda Margrét

Lovísa Thompson, landsliðskona í handbolta, gengur í raðir danska úrvalsdeildarliðsins Ringkøbing á láni frá Val í sumar.

Eftir tap Vals fyrir Fram, 22-23, í fjórða leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í fyrradag greindi Lovísa frá því að hún væri á förum frá Val.

Nú er ljóst að Ringkøbing verður næsti áfangastaður á ferli Lovísu. Hjá liðinu hittir hún fyrir annan Seltirning, landsliðsmarkvörðinn Elínu Jónu Þorsteinsdóttur.

Ringkøbing endaði í þrettánda og næstneðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í vetur en bjargaði sér frá falli í umspili.

Lovísa lék með Val í fjögur tímabil. Hún vann þrefalt með liðinu tímabilið 2018-19 og varð svo bikarmeistari með því á síðasta tímabili.

„Ég virkilega samgleðst Lovísu að vera að fara til Danmerkur að spreyta sig í bestu deild í heimi. Lovísa hefur leikið frábærlega með Val og verið mikil og góð fyrirmynd innan félagsins. Ég hlakka til að fylgjast með henni taka næstu skref á sínum ferli,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, í færslu á Facebook-síðu félagsins.

Sem fyrr sagði varð Valur bikarmeistari á nýafstöðnu tímabili og komst í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn þar sem liðið tapaði fyrir Fram, 3-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×