Erlent

Hermenn og rússneskir málaliðar tóku hundruð af lífi í Malí

Samúel Karl Ólason skrifar
Her Malí hefur verið sakaður um ýmis ódæði gegn óbreyttum borgurum frá því herforingjar tóku þar völd í fyrra. Þessi hermaður fagnaði ákaft þegar herinn tók völd.
Her Malí hefur verið sakaður um ýmis ódæði gegn óbreyttum borgurum frá því herforingjar tóku þar völd í fyrra. Þessi hermaður fagnaði ákaft þegar herinn tók völd. EPA/H.DIAKITE

Hermenn og málaliðar frá Rússlandi eru sagðir hafa tekið hundruð manna af lífi í bænum Moura í Malí í mars. Hermennirnir voru að elta vígamenn sem hafa verið umsvifamiklir á svæðinu um árabil.

Árásin byrjaði á því að þyrlum var flogið yfir bæinn og skutu hermenn úr þeim á fólk. Hermenn og málaliðar höfðu lokað öllum útgönguleiðum úr bænum. Vitni sem blaðamenn New York Times ræddu við sögðu hvíta málaliða, sem töluðu hvorki ensku né frönsku, hafa verið hermönnum Malí til aðstoðar og yfir fimm daga tímabil hafi þeir farið ránshendi um bæinn og tekið hundruð manna af lífi.

Bæði hermenn og málaliðar komu að aftökunum og vitni segja marga hafa verið skotna til bana á grunni uppruna þeirra eða klæðaburðar. Málaliðarnir munu þó hafa verið hvað verstir þegar kom að ránum.

Blaðamenn NYT segjast hafa fundið minnst tvær fjöldagrafir við bæinn. Vitni segja allt að fjögur hundruð hafa dáið í árásinni og þar af lang flestir óbreyttir borgarar. Einn viðmælandi NYT sagði aftökurnar í Moura hafa staðið yfir frá mánudegi til fimmtudags og annar sagði að allt ungt fólk bæjarins hefði verið tekið af lífi.

Miðillinn segir Sameinuðu þjóðirnar og sérfræðinga hafa lýst yfir áhyggjum af umfangsmiklum morðum á óbreyttum borgurum í Malí. Í einni skýrslu SÞ kemur fram að mögulega sé um glæpi gegn mannkyni að ræða.

Sameinuðu þjóðirnar vinna að skýrslu um árásina á Moura.

Abdoulaye Diop, utanríkisráðherra Malí, og Sergei Lavrov, kollegi hans frá Rússlandi. Myndin var tekin þegar Diop heimsótti Rússland.EPA/YURI KADOBNOV

Skuggaher Pútíns

Rússnesku málaliðarnir til heyra málaliðasamtökum sem ganga undir nafninu Wagner Group. Hópnum hefur verið lýst sem skuggaher Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, og hafa þeir verið virkir í Mið-Austurlöndum, Afríku og í Úkraínu.

Evrópusambandið segir Wagner Group hafa verið stofnað af Dmitry Utkin, fyrrverandi hermanni frá Rússlandi, sem er skreyttur nasista-húðflúrum. Þá er málaliðahópurinn sagður vera kallaður Wagner Group vegna þess að Richard Wagner hafi verið eitt af uppháhalds tónskáldum Adolfs Hitler.

Utkin er meðal annars sakaður um að hafa fyrirskipað pyntingu og morð á sýrlenskum liðhlaupa.

Sérfræðingar telja málaliðahópinn fjármagnaðan af rússneska auðjöfrinum Yevgeny V. Prigozhin, sem er náinn bandamaður Pútíns. Í svörum við fyrirspurnum blaðamanna fór hann fögrum orðum um herforingjastjórn Malí og árásina á Moura en þvertók fyrir að málaliðar á vegum Wagner væru í ríkinu.

Hann þvertók einnig fyrir að Wagner group væri yfir höfuð til og sagði að hvar sem rússneskir málaliðar væru, hvort sem þeir væru raunverulegir eða tilbúningur, brytu þeir ekki gegn mannréttindum.

Franskur hermaður horfir yfir bæ í Malí árið 2017. Franskir hermenn yfirgáfu landið fyrr á þessu ári.EPA/CHRISTOPHE PETIT TESSON

Frakkar fóru vegna umsvifa Rússa

Fyrr á þessu ári yfirgáfu franskir hermenn og bandamenn þeirra Malí en þeir höfðu verið þar og í öðrum ríkjum Vestur-Afríku í nærri því tíu ár að berjast við vígamenn íslamista. Samband yfirvalda í Frakklandi og Malí hefur beðið hnekki á undanförnum mánuðum eftir herinn tók völd í síðarnefnda ríkinu.

Samhliða því hafa umsvif Rússa í Malí aukist. Frakkar sökuðu herstjórnina um að nota málaliða Wagner Group til að tryggja völd sín, undir því yfirskyni að berjast gegn vígamönnum.

Frakkar segja um þúsund málaliða hafa verið senda til Malí og margir þeirra haldi til í gömlum herstöðum Frakka.

Stærðu sig af miklum sigri

Herforingjastjórn Malí stærði sig af umfangsmiklum sigri í Moura og var því haldið fram að 203 vígamenn hefðu verið felldir og rúmlega fimmtíu hefðu verið handsamaðir. Í yfirlýsingu var ekkert sagt um mannfall meðal óbreyttra borgara.

Stjórnin hefur neitað því að málaliðar á vegum Wagner group komi að átökum í landinu og segjast vera með samning við Rússland um þjálfun hermanna. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði þó í viðtali fyrr í mánuðinum að Wagner group væri með starfsemi í Malí og veitti þar öryggisþjónustu.


Tengdar fréttir

ISIS-liðar stinga aftur upp kollinum í Írak og Sýrlandi

Vígamenn Íslamska ríkisins stinga sífellt oftar upp kollinum í Írak og Sýrlandi. Þó samtökin séu langt frá því að ná fyrri hafa meðlimir samtakanna fyllt upp í tómarúm sem myndast hefur í norðurhluta Íraks og í Sýrlandi.

Felldu leiðtoga ISIS í Sahel

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segir að franskir hermenn hafi fellt leiðtoga Íslamska ríkisins í Sahel. Adnan Abu Walid al-Sahrawi var meðal annars eftirsóttur af vesturlöndum vegna mannskæðra árása á bandaríska hermenn og hjálparstarfsmenn.

Vígamenn mala gull í Afríku

Al-Qaeda, Íslamska ríkið og önnur hryðjuverkasamtök hafa að undanförnu dreift úr sér í Afríku. Sameinuðu þjóðirnar og aðrir sérfræðingar hafa sérstaklega varað við því að hryðjuverkasamtök nái stjórn á gullnámum á Sahel-svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×