Innlent

Rotaðist við að aka á grind­verk

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var fluttur á bráðadeild Landspítala. Myndin er úr sagni og tengist fréttinni ekki beint.
Maðurinn var fluttur á bráðadeild Landspítala. Myndin er úr sagni og tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út eftir að tilkynnt var um umferðarslys í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. Upp úr klukkan 23 hafði ökumaður rafhlaupahjóls ekið á grindverk og fallið í jörðina með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka á höfði og er talinn hafa rotast.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að maðurinn hafi verið hjálmlaus og var hann fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild Landspítala.

Upp úr miðnætti var tilkynnt um annað rafhlaupahjólaslys, að þessu sinni í Hafnarfirði. Þar hafði ökumaður ekið af gangstétt og fallið í jörðina. Maðurinn var með áverka á höfði og fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild.

Um 23:30 var tilkynnt um þjófnað úr verslun í hverfi 109 í Reykjavík. Þar var kona stöðvuð þegar hún var að yfirgefa verslunina með matvörur sem hún hafði ekki greitt fyrir.

Upp úr klukkan 17 í gærdag var svo lögregla kölluð út vegna bílveltu í Mosfellsbæ. Ökumaðurinn hafði þar bakkað ofan í hvilft á vegi með þeim afleiðingum að bíllinn fór úr af og valt á hliðina. Ökumaðurinn var ómeiddur, hringdi sjálfur í krók sem flutti bílinn af vettvangi.

Lögregla sinnti einnig fjölmörgum útköllum í umdæminu þar sem ökumenn voru stöðvaðir, ýmist vegna farsímanotkunar undir stýri, akstur á nagladekkjum og akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×