Fótbolti

Sara Björk fékk væna flug­ferð eftir loka­leik sinn fyrir Lyon

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lyon hefur 15 sinnum orðið franskur meistari.
Lyon hefur 15 sinnum orðið franskur meistari. Twitter@OLfeminin

Landsiðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir róir á önnur mið í sumar en ljóst er að hún verður ekki áfram á mála hjá Evrópu- og Frakklandsmeisturum Lyon. Hún lék lokaleik sinn fyrir félagið á miðvikudag og var tolleruð að loknum 4-0 sigri á Issy.

Lyon mætti Issy í lokaumferð frönsku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld, miðvikudaginn 1. júní og vann sannfærandi 4-0 sigur. Liðið hafði þegar tryggt sér sigur í frönsku deildinni og leikurinn í raun formsatriði til að klára frábært tímabil.

Lyon hafði einnig tryggt sér sigur í Meistaradeild Evrópu með mögnuðum sigri á Barcelona og því hefði verið hægt að fyrirgefa smá kæruleysi en það var ekki að sjá á leikmönnum Lyon.

Eugénie Le Sommer skoraði eina mark fyrri hálfleiks og Sara Björk kom svo inn af bekknum í hálfleik. Í síðari hálfleik skoruðu heimakonur þrívegis og lyftu því titlinum eftir 4-0 stórsigur. Melvine Malard, Danielle van de Donk og Wendie Renard með mörkin.

Hér að ofan má sjá myndband þegar Sara Björk er tolleruð ásamt þeim Kadeisha Buchanan og Emelyne Laurent.

Ekki er enn komið í ljós hvert Sara Björk fer í sumar en það verður forvitnilegt að sjá hvert þessi magnaða knattspyrnukona fer næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×