Innlent

Maður með hamar réðst á konu í Kópa­vogi

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.
Maðurinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út upp úr miðnætti þegar tilkynnt var um að maður með hamar í hönd var sagður hafa ráðist að konu og kastað hamrinum í bíl hennar í Kópavogi.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir að maðurinn hafi verið farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn, en talsverðar skemmdir voru á bílnum.

Einnig segir meðal annars frá tveimur umferðaróhöppum í hverfi 105 í Reykjavík um kvöldmatarleytið. Í hinu fyrra rákust tveir bílar saman. Þar var annar ökumanna, sá sem var valdur að árekstrinum, handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.

Í hinu síðara var einnig tilkynnt um árekstur tveggja bíla. Þar kenndi ökumaður fremri bíls eymsla í hnakka eftir höggið og ætlaði að fá aðhlynningu á bráðadeild Landspítala. 

„Tjónvaldur þ.e. ökumaður aftari bifreiðar sagður vímaður og yfirgaf vettvang er hann heyrði að lögregla væri væntanleg. Tjónvaldur var handtekinn síðar og er hann grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum lyfja /fíkniefna. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu,“ segir í tilkynningunni frá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×