Spænski fjölmiðillinn El País greinir frá þessum ópíumtúrisma í umfjöllun sinni um málið. Þar kemur fram að Spánn sé stærsti framleiðandi löglegra ópíum-hráefna úr ópíumvalmúa í heiminum.
Árlega eru framleidd um 113 tonn morfín-ígildis á Spáni, talsvert meira en í Frakklandi og Ástralíu sem framleiða bæði um 75 tonn. Meirihluti ræktunar ópíums á heimsvísu er hins vegar ólöglegur og því ómögulegt að meta heildarmagn ræktunar.
Lyfjafyrirtækið Alcaliber hefur eitt haft einkarétt á ræktun ópíums og framleiðslu ópíóðalyfja á Spáni frá árinu 1986. Ópíóða-lyf eru notuð í lækningarskyni til verkjastillingar en á undanförnum árum hefur lögleg og ólögleg notkun slíkra lyfja aukist mjög. Lyfjayrirtækið var áður í eigu milljarðamæringsins Juan Abelló, eins ríkasta manns Spánar, sem seldi það árið 2018 til breska sjóðsins GHO fyrir rúmlega 200 milljónir evra.
Ungar eiturlyfjavampírur komi með vorinu
Staðsetning hinna 528 valmúa-akra Alcaliber, sem telja um 11.000 hektara, er leynileg. Á vorin þegar hvít blómin blómstra er þó ómögulegt að fela akrana. Fyrir rúmum áratug varð þjóðvarðalið svæðisins vart við mikla aukningu ferðamanna sem kæmu til svæðisins til að stelast í plöntur ópíumvalmúans.
Samkvæmt Álvaro Gallardo, talsmanni þjóðvarðaliðsins í Toledo, birtast ungir ferðamenn í maí í þeim eina tilgangi að neyta blóma plöntunnar.

Efnafræðingurinn Carlos García Caballero hefur varað við þessum eiturlyfjatúrisma, ferðamenn hafi ekki stjórn yfir skömmtunum sem þeir fá úr plöntunum. Fyrir þremur árum lést tvítugur írskur ferðamaður á miðjum valmúaakri eftir ofneyslu á ópíumi og árið 2009 lést ungur Ítali á sama hátt. Þetta sport ferðamanna er því ekki hættulaust.
Neysla ópíóða eykst
Aukning á þessum ópíumtúrisma á Spáni er ekki samhengislaus, neysla ópíóðalyfja hefur aukist mjög á heimsvísu á undanförnum árum.
Yfirlæknir Vogs greindi frá því í desember síðastliðnum að 250 manns hefðu farið í meðferð við ópíóðafíkn það árið og varaði við nýjum ópíóðafaraldri hérlendis. Í fréttaskýringarþætti Kompáss í janúar kom fram að þúsundir Íslendinga væru með ávísanir fyrir ópíóða-lyfinu Oxycontín, margfalt fleiri en fyrir áratug. Nýverið biðluðu fulltrúar Matthildar - samtaka um skaðaminnkun til yfirvalda um að bregðast við faraldrinum.