Rúnar Alex Rúnarsson heldur stöðu sinni milli stanganna en ein breyting er gerð á varnarlínunni. Hana manna Davíð Kristján Ólafsson, Hörður Björgvin Magnússon, Daníel Leó Grétarsson og Alfons Sampsted. Davíð kemur inn fyrir Brynjar Inga Bjarnason, sem fór meiddur af velli í Ísrael og Hörður Björgvin byrjar í miðverði.
Birkir Bjarnason er áfram á miðjunni með fyrirliðabandið og honum við hlið verða Þórir Jóhann Helgason og Ísak Bergmann Jóhannesson. Ísak kemur inn í liðið fyrir Hákon Arnar Haraldsson, sem fór líkt og Brynjar, meiddur af velli í vikunni.
Jón Dagur Þorsteinsson og Arnór Sigurðsson halda sinni stöðu úti á köntunum og í fremstu víglínu er Andri Lucas Guðjohnsen, en hann tekur sæti bróður síns, Sveins Arons Guðjohnsen, sem byrjaði í Ísrael.