Fótbolti

Mourinho orðaður við PSG

Atli Arason skrifar
Mourinho telur upp fjölda Evróputitla sína eftir sigur Roma í Sambandsdeildinni.
Mourinho telur upp fjölda Evróputitla sína eftir sigur Roma í Sambandsdeildinni. Getty Images

Forráðamenn franska félagsins Paris Saint-Germain eru sagðir horfa til hins portúgalska Jose Mourinho sem næsta knattspyrnustjóra liðsins.

Talið er að núverandi knattspyrnustjóri PSG, Mauricio Pochettino, fái sparkið á allra næstu dögum. Mourinho á að vera efsta nafn á lista franska liðsins yfir hugsanlega arftaka samkvæmt breskum fjölmiðlum. Nýráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá PSG, Luis Campos, þekkir vel til Mourinho en Campos var sá sem fékk Mourinho til Real Madrid á sínum tíma.

Árangur í Evrópu er efst á stefnulista í París og er það eitthvað sem eigendur PSG hafa ekki farið leynt með. Tap PSG gegn Real Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á nýliðnu tímabili þýðir að árangurinn var ekki nægilega góður í augum forráðamanna liðsins, þrátt fyrir að hafa unnið frönsku deildina.

Jose Mourinho vann Sambandsdeild Evrópu með Róma á dögunum. Það var fyrsti Evróputitill liðsins í meira en 60 ár þar sem Roma vann síðast Evróputitil árið 1961. Mourinho varð um leið fyrsti þjálfarinn til að vinna alla þrjá Evrópubikara sem í boði eru. Í heildina hefur Mourinho unnið fimm Evróputitla og er á meðal sigursælustu knattspyrnustjórum í Evrópu.

Mourinho er sagður ánægður í Róm en hann á tvö ár eftir af núverandi samning sínum við liðið. Það þarf því stórt tilboð ef PSG ætlar að lokka Portúgalann yfir til Parísar en þetta er ekki í fyrsta skipti sem PSG reynir að fá Mourinho til að stýra liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×