Fótbolti

Verður dýrasti leikmaður í sögu Liverpool

Atli Arason skrifar
Darwin Nunez, leikmaður Benfica, fagnar marki gegn Barcelona.
Darwin Nunez, leikmaður Benfica, fagnar marki gegn Barcelona. EFE/MANUEL DE ALMEIDA

Darwin Núñez, leikmaður Benfica, er ansi eftirsóttur en Liverpool, Manchester United og Newcastle eru öll sögð komin í kaupstríð um undirskrift úrúgvæska framherjans.

Manchester eða Newcastle voru í gær taldir vera líklegustu áfangastaðir Núñez á meðan forráðamenn Liverpool gáfu í skyn að þeir ætluðu ekki að láta draga sig í einhverskonar kauphlaup um leikmanninn.

Ítalski fjölmiðlamaðurinn Fabrizio Romano greindi frá því rétt í þessu að Liverpool væri búið að leggja fram tilboð fyrir allt að 100 milljónum evra í leikmanninn sem er það verð sem Benfica er talið vilja fá fyrir Núñez.

Fari svo að þessi kaup gangi í gegn verður Núñez dýrasti leikmaður Liverpool frá upphafi og slær hann þá met Virgil Van Dijk um tæpar 10 milljónir evra.

Glen Johnson, fyrrum leikmaður Liverpool, sagði á dögunum að fari svo að Liverpool ætlaði borga uppsett verð fyrir leikmanninn þá myndi Úrúgvæinn enda á því að klæðast treyju liðsins.

„Maður áætlar að Núñez myndi velja Anfield ef þetta væri á milli Liverpool og Manchester United. Eins og við vitum, þá hefur Manchester United ekki sama aðdráttarafl í dag og þeir höfðu áður,“ sagði Johnson í viðtali við Liverpool Echo

Takumi Minamino og Sadio Mane eru báðir taldir vera á förum frá Liverpool sem ætti að leysa til um eitthvað fé hjá félaginu til að fjármagna kaupin á Núñez.

Fari svo að leikmaðurinn velji Newcastle yrði hann helmingi dýrari en Joelinton sem er dýrasti leikmaður Newcastle í dag. Joelinton var keyptur á 44 milljónir evra árið 2019. Myndi Núñez skrifa undir hjá Manchester United fyrir 100 milljónir yrði hann þó 5 milljónum ódýrari en Paul Pogba, sem fór frítt frá Manchester á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×