Þetta kemur fram í ályktun félagsmanna sem samþykkt var á félagsfundi á mánudaginn og sem send var á fjölmiðla í hádeginu. Boðað var til félagsfundarins í kjölfar dóms Landsréttar í máli Þóru Einarsdóttur gegn Íslensku óperunni ses
Í ályktuninni segir að niðurstaðan staðfesti rétt söngvara til að njóta lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningi stofnunarinnar við stéttarfélög þeirra, FÍH og FÍL.
„Klassís skorar á ráðherra menningarmála að stöðva fjárveitingar til Íslensku óperunnar ses. að öllu óbreyttu. Félagsmenn telja frekari fjárveitingar til sjálfseignarstofnunarinnar ekki réttlætanlegar nema sitjandi stjórn og óperustjóri víki nú þegar.
Klassís kallar eftir heilbrigðu og ásættanlegu starfsumhverfi til óperuflutnings á meðan undirbúningur stofnunar Þjóðaróperu stendur yfir,“ segir í ályktuninni.
„Settir út í kuldann“
Í ályktuninni ítrekar Klassís jafnframt vantraustsyfirlýsingu sína frá því í janúar 2021 á stjórn og óperustjóra Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, vegna stjórnunarhátta á undanförnum árum.
„Í dómi Landsréttar kemur fram að Íslenska óperan ses. braut gegn kjarasamningum ÍÓ, FÍL og FÍH í þremur mikilvægum atriðum. Greidd voru lægri laun fyrir æfingatímabil en kjarasamningur kveður á um. Ekki var greitt fyrir yfirvinnu sem þó ber að gera samkvæmt kjarasamningi. Ekki voru greidd launatengd gjöld sem þó ber að gera samkvæmt kjarasamningi. Málflutningur Íslensku óperunnar bar vott um vanþekkingu á framleiðsluferli óperusýninga og sýndi stétt óperusöngvara lítilsvirðingu. Dómurinn hefur þýðingu fyrir alla söngvara og staðfestir að óheimilt er að sniðganga kjarasamninga listamanna.
Félagsmenn telja margir að „þeir séu settir út í kuldann“ fyrir það eitt að sýna þakklæti sitt og stuðning við kjarabaráttu söngvara. Svo er komið að margir okkar fremstu söngvara stíga ekki á svið í uppfærslum ÍÓ vegna þess að þeir hafa lent í ágreiningi við óperustjóra og fá því ekki tækifæri eða þeir geta ekki lengur hugsað sér að starfa fyrir stofnunina,“ segir í ályktuninni.
Sjá fram á bjarta tíma
Segir að félagsmenn Klassís sjái fram á bjarta tíma í faginu í nánustu framtíð, nái ofangreint fram að ganga. „Mikill mannauður býr í íslenskum söngvurum sem þyrstir í að byggja upp frjóan starfsvettvang með stofnun nýrrar Þjóðaróperu og sinna sínu menningarlega hlutverki, þjóðinni allri til heilla,“ segir í ályktun félagsmannanna.