Fótbolti

Zidane sagður taka við PSG en talsmaðurinn neitar

Sindri Sverrisson skrifar
Zinedine Zidane þjálfaði síðast Real Madrid en hætti með liðið fyrir ári síðan, í annað sinn á ferlinum.
Zinedine Zidane þjálfaði síðast Real Madrid en hætti með liðið fyrir ári síðan, í annað sinn á ferlinum. Getty

Franski knattspyrnustjórinn Zinedine Zidane gæti verið að taka við frönsku meisturunum í PSG en umboðsmaður hans neitar því að svo sé.

Franska útvarpsstöðin Europe 1 greindi frá því fyrr í dag að Zidane væri að taka við PSG af Mauricio Pochettino sem lengi hefur verið sagður á útleið hjá PSG eftir dapran árangur í Meistaradeild Evrópu.

Zidane hefur aðeins þjálfað Real Madrid á sínum þjálfaraferli, og unnið Meistaradeildina þrisvar og Spánarmeistaratitilinn tvisvar sem þjálfari, en hætti fyrir ári síðan eftir titlalaust tímabil.

Alain Migliaccio, umboðsmaður Zidane, segir við franska blaðið L‘Equipe að það sé rangt að Zidane sé að taka við PSG.

„Það er enginn stoð fyrir þessum orðrómum sem hafa verið í gangi. Til þessa dags þá er ég eini maðurinn með leyfi til að vera fulltrúi og ráðgjafi Zinedine Zidane. Hvorki Zinedine Zidane né ég sjálfur höfum verið í beinu sambandi við eiganda PSG,“ sagði Migliaccio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×