Kaupverðið fyrir hlutunum, sem eru alls 10.899.684, er 1.089.968.400 norskra króna. Greitt verður með reiðufé sem verður að hluta til fjármagnað með öflun lánsfjár.
Í tilkynningunni kemur fram að Arctic Fish Holding AS eigi 100% hlutafjár í Arctic Fish ehf. sem er eitt af stærstu laxeldisfyrirtækjum á Íslandi og rekur eldisstöðvar á Vestfjörðum þar sem félagið er með rúmlega 27 þúsund tonna leyfi fyrir eldi í sjó.
Sjá tækifæri í auknu samstarfi fiskeldisfyrirtækja
„Laxeldi er ört vaxandi atvinnugrein sem við höfum fylgst með á undanförnum árum. Aukið fjármagn og þekking hefur komið inn í greinina á síðustu árum og við teljum vera mikil tækifæri til staðar,“ segir Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar um kaupin.
Þá segir hann að félagið hafi metnaðarfull áform og það hafi verið í miklum fjárfestinga- og uppbyggingarfasa á síðustu árum. Síldarvinnslan sjái jafnframt tækifæri í auknu samstarfi fiskeldisfyrirtækja á svæðinu.