Handbolti

Ómar endaði næst markahæstur og Bjarki Már þriðji

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már og Ómar Ingi hafa leikið frábærlega í vetur.
Bjarki Már og Ómar Ingi hafa leikið frábærlega í vetur. HSÍ

Lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta fór fram í dag þar sem heil umferð var spiluð á sama tíma. Ómar Ingi Magnússon endar sem næst markahæsti leikmaður deildarinnar og Bjarki Már Elísson þriðji.

Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar þeirra í Magdeburg höfðu þegar tryggt sér þýska meistaratitilinn fyrir lokaumferðina. Úrslit dagsins skiptu því kannski litlu máli fyrir liðið, en Ómar átti enn möguleika á að verja markakóngstitilinn frá því í fyrra.

Magdeburg hafði að lokum betur gegn Ými Erni Gíslasyni og félögum hans í Rhein-Neckar Löwen, 37-34. Ómar Ingi skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg, en Hans Lindberg, leikmaður Füchse Berlin, skoraði níu mörk í sínum leik og heldur því toppsæti markaskoraralistans.

Ómar skoraði 236 mörk á tímabilinu, en Hans Lindberg 242.

Þá unnu Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo góðan sigur gegn Hamburg, 28-23. Bjarki var fyrir umferðina tveimur mörkum á eftir Ómari og þremur á eftir Lindberg, en Bjarki skoraði fjögur í dag og endar því sem þriðji markahæsti maður deildarinnar.

Stuttgart og Melsungen áttust einnig við í Íslendingaslag þar sem Stuttgart hafði betur, 28-25. Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Stuttgart, en Andri Már Rúnarsson komst ekki á blað. Fyrir Melsungen skoraði Arnar Freyr Arnarsson þrjú mörk og Alexander Petersson tvö.

Janus Daði Smárason komst ekki á blað er Göppingen mátti þola sjö marka tap gegn Kiel, 42-35, eekki frekar en Arnór Þór Gunnarsson í liði Bergischer sem vann fjögurra marka sigur gegn Tus N-Lübbecke, 26-22.

Teitur Örn Einarsson skoraði fjögur mörk fyrir Flensburg er liðið vann sex marka sigur gegn Füchse Berlin, 28-22, og að lokum varð það endanlega staðfest að Daníel Þór Ingason og félagar hans í HBW Balingen-Weilstetten eru fallnir úr þýsku úrvalsdeildinni eftir sjö marka tap gegn Erlangen, 33-26.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×