Innlent

Þrír hand­teknir fyrir ógnandi fram­komu og hótanir

Bjarki Sigurðsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta.
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta. Vísir/Vilhelm

Þrír menn voru handteknir af lögreglu í nótt á þremur ólíkum stöðum og vistaðir í fangageymslu fyrir ógnandi framkomu og hótanir. Fyrst var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi í Hafnarfirði sem var mjög æstur og hafði verið að ógna fólki. Lögregla handtók hann og setti í fangaklefa sökum ástands.

Um hálfþrjú var annar maður í annarlegu ástandi handtekinn, að þessu sinni í Breiðholti. Sá var staddur inni í stigagangi húss þar sem hann var óvelkominn og þegar lögregla kom á vettvang neitaði hann að fara að fyrirmælum hennar og var því handtekið einnig og fékk að gista í fangageymslu.

Þriðja atvikið átti sér síðan stað í Mosfellsbæ en þar var maður handtekinn grunaður um hótanir, brot á reglugerð um skotelda og líkamsárás. Sá fékk einnig að gista á Hverfisgötunni.

Þá var tilkynnt um innbrot í verslun í miðbæ Reykjavíkur en þegar lögregla kom á staðinn hafði hurð verslunarinnar verið spennt upp og sjóðsvélinni verið stolið.

Bifreið var stöðvuð á Suðurlandsvegi við Bláfjöll og ökumaður látinn blása í áfengismæli. Hann reyndist hafa drukkið áfengi en mældist undir refsimörkum. Honum var gert að hætta akstri en hann var einnig með einn umfram farþega í bílnum.

Ökumaður sem ók á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg mældist á 143 kílómetra hraða þar sem hámarkshraðinn er áttatíu kílómetra hraði. Lögregla stöðvaði aksturinn en ökumaðurinn neitaði fyrir brotið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×