Frá þessu greindi Sveinn í viðtali við Handbolti.is. Sveinn var við æfingar fyrir Evrópumótið sem fram fór í janúar þegar hann meiddist illa á hné. Í viðtali sínu segir Sveinn að hann hafi þurft að fara í aðra aðgerð þar sem ekki náðist að lagfæra allt í fyrri aðgerðinni.
„Það var ákveðið að ég færi í aðra aðgerð til að koma í veg fyrir verki sem voru að trufla endurhæfinguna,“ sagði Sveinn. Ef allt fer á besta veg ætti hann að vera orðinn leikfær í ágúst eða september.
Eftir að hafa leikið með danska úrvalsdeildarfélaginu SønderjyskE í þrjú ár þá samdi hinn 22 ára gamli Sveinn við HC Erlangen undir lok síðasta árs. Liðið endaði í 13. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar á nýafstaðinni leiktíð. Þrátt fyrir meiðslin er samningur Sveins við félagið enn í gildi.
„Ég stefni á að vera mættur sem fyrst aftur á völlinn og vinn hart að því,“ sagði Sveinn að endingu.