Innlent

Ekjubrú Herjólfs skemmdist í árekstri í Eyjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Töluvert högg kom á Herjólf við áreksturinn. Ekjubrúin sem hér sést varð fyrir skemmdum.
Töluvert högg kom á Herjólf við áreksturinn. Ekjubrúin sem hér sést varð fyrir skemmdum. Tigull.is

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur er á eftir áætlun eftir óhapp sem laskaði ekjubrú skipsins í kvöld. Bílar sem ætluðu í land í Vestmannaeyjum sátu fastir um borð í um klukkustund vegna óhappsins.

Bæjarmiðillinn Tígull.is segir að grindur í bílabrúnni hafi þrýst upp og beyglast þegar ferjan kom of harkalega að bryggju.

Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir við Vísi að ferjan hafi bakkað á ekjubrúna sem er notuð til að ferja bíla um og frá borði þegar hún lagðist til hafnar í Vestmannaeyjahöfn um klukkan 19:00 í kvöld.

Ráðist var í bráðabirgðaviðgerð á brúnni og tókst að koma öllum bílunum frá borði um klukkan átta.

Vegna óhappsins er töf á dagskrá Herjólfs í kvöld. Hann fer frá Eyjum klukkan 21:00 og í síðustu ferð frá Landeyjahöfn klukkan 23:15.

„Þetta mun sleppa í kvöld. Svo verðum við bara að meta stöðuna á þessu,“ segir Hörður Orri.

Gefin verði út tilkynning um ferðir Herjólfs þegar ástand brúarinnar hefur verið metið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×