Sport

Hákon Arnar Haraldsson: Það er draumi líkast að gera þetta með vini sínum

Sverrir Mar Smárason skrifar
Hákon Arnar með boltann í leiknum í kvöld.
Hákon Arnar með boltann í leiknum í kvöld. Vísir/ Hulda Margrét

Hákon Arnar Haraldsson byrjaði sinn fyrsta heimaleik með Íslenska karlalandsliðinu í fótbolta í 2-2 jafnteflinu gegn Ísrael í kvöld. Hann var ánægður að fá að byrja en hefði viljað vinna leikinn.

„Fyrst og fremst bara svekkjandi að ná ekki að klára þetta en gaman að fá fyrsta byrjunarliðsleikinn á Laugardalsvelli. En að sjálfsögðu er það svekkjandi að missa þetta niður en við þurfum bara að læra að klára leiki og bara drepa þá. Það er það eina í stöðunni. Við þurfum annað hvort að fara alveg og reyna að skora annað mark eða bara fara niður og beita skyndisóknum og klára leikinn þannig en það eru þjálfararnir sem ráða,“ sagði Hákon Arnar.

Ísland komst yfir snemma leiks og Arnór Sigurðsson hefði getað tvöfaldað forystuna um miðjan fyrri hálfleik eftir sendingu frá Hákoni.

„Auðvitað er ég svekktur að hann hafi ekki sett hann en þetta var vel varið. Vanalega hefði Arnór skorað en svona er þetta og leikurinn fór eins og hann fór,“ sagði Hákon um færið.

Hákon hefur verið gríðarlega öflugur í sínum fyrstu landsleikjum í þessum landsleikjaglugga og stimplað sig inn í liðið. Honum hefur sérstaklega verið hrósað fyrir góða pressu.

„Það var sett upp þannig að við myndum pressa vinstra megin og ég myndi fara á hægri hafsentinn. Kannski af því að ég er góður að pressa, já örugglega það. Ég og Jón Dagur vorum flottir,“ sagði Hákon.

Hákon hefur ekki aðeins stimplað sig inn í íslenska landsliðið heldur gerði hann það einnig hjá FCK í Danmörku á liðnu tímabili. Hann bjóst ekki við svo stóru hlutverki fyrir mótið en fagnar því ásamt samkeppninni við besta vin sinn, Ísak Bergmann.

„Ég bjóst ekki við þessu þegar við vorum í Austurríki í æfingaferð. Það var hinsvegar frábært að enda þetta svona á þremur byrjunarliðs leikjum, tveimur mörkum og að vinna svo titilinn. Það er draumi líkast að gera þetta með vini sínum. Frá því að við vorum guttar á Norðurálsmótinu og yfir í að vinna saman danska meistaratitilinn.“

„Við reynum að bæta hvorn annan inná vellinum. Við getum báðir spilað margar stöður inná vellinum. Þetta er holl samkeppni og mér finnst við bæta hvorn annan,“ sagði Hákon.

Hákon hefur varla fengið frí í marga mánuði en fær nú nokkra daga. Hann segist vera klár þegar hann þarf vegna þess að hann er enn ungur.

„Líkaminn er bara flottur. Ég er ennþá bara ungur og nóg af orku í mér. Ég er bara klár þegar kallið kemur og við eigum að fara að æfa aftur með FCK. Ég fæ átta daga núna, það er nú ekki mikið en það er eitthvað. Svo er það bara beint aftur í „action“ með FCK,“ sagði Hákon Arnar.


Tengdar fréttir

Einkunnir Íslands: Þórir Jóhann og Hákon stóðu upp úr

Leikmenn íslenska landsliðsins áttu misgóðan dag er liðið gerði 2-2 jafntefli við Ísrael öðru sinni í Þjóðadeild karla í fótbolta í kvöld. Ísland er með þrjú stig eftir þrjá leiki í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×