Innlent

Lands­fundur hjá Sjálf­stæðis­flokknum í nóvember

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sjálfstæðismenn hafa aðsetur í Valhöll við Háaleitisbraut.
Sjálfstæðismenn hafa aðsetur í Valhöll við Háaleitisbraut. Vísir/Sigurjón

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að halda landsfund flokksins í Laugardalshöll dagana 4.-6. nóvember næstkomandi. Á landsfundi er stefna flokksins mótuð og kosið í embætti formanns, varaformanns og ritara.

Fundurinn er haldinn að jafnaði annað hvert ár en hefur ekki verið haldinn síðan árið 2018 vegna heimsfaraldurs. Fyrst átti hann að fara fram dagana 13.-15. nóvember árið 2020 en einungis 200 manns máttu koma saman þá vegna fjöldatakmarkana.

Þá var aftur reynt að halda landsfund í ágúst árið 2021 en þá var veiran aftur komin á fulla ferð og því ekki unnt að halda fund.

Á síðasta landsfundi árið 2018 var Bjarni Benediktsson kjörinn formaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var kjörin varaformaður og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari flokksins. Ekkert þeirra fékk mótframboð og hlutu öll vel yfir 90 prósent gildra atkvæða.

Seturétt á landsfund eiga flokksráðsfulltrúar flokksins auk þess sem félög og fulltrúaráð kjósa fulltrúa til setu á fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×