Fótbolti

La Liga berst gegn „ríkisfélögunum“ PSG og Man. City

Sindri Sverrisson skrifar
Real Madrid sló Manchester City út í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í byrjun maí, um svipað leyti og La Liga lagði fram ásakanir sínar til UEFA.
Real Madrid sló Manchester City út í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í byrjun maí, um svipað leyti og La Liga lagði fram ásakanir sínar til UEFA. Getty

Forráðamenn spænsku 1. deildarinnar í fótbolta, La Liga, hafa sent formlegar ásakanir til UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, þar sem þeir telja PSG og Manchester City hafa brotið reglur um fjárhagslega háttvísi.

Javier Tebas, forseti La Liga, hefur ítrekað kvartað undan PSG og City og lýst þeim sem „ríkisfélögum“. PSG er í eigu félags frá Katar en City er í eigu félags frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Tveir leikmenn sem forráðamenn Real Madrid vonuðust eftir að fá til Spánar í sumar hafa nú nýverið samið við PSG og City en Kylian Mbappé gerði nýjan risasamning við PSG og City samdi við Erling Haaland sem félagið keypti frá Dortmund.

„Það er skilningur La Liga að hin óreglulega fjármögnun þessara félaga sé annað hvort í gegnum beina innspýtingu fjár eða í gegnum styrki og aðra samninga sem passa engan veginn við markaðsaðstæður eða ganga nokkurn veginn upp fjárhagslega,“ segir í yfirlýsingu frá spænsku deildinni.

„La Liga telur að þessi vinnubrögð breyti vistkerfi og sjálfbærni fótboltans, skaði öll evrópsk félög og deildir, og skapi einungis gerviverðbólgu á markaðnum með peningum sem ekki eru búnir til innan fótboltans,“ segir í yfirlýsingunni.

Kvörtunin gagnvart PSG var lögð fram í síðustu viku en kvörtunin gagnvart City í apríl en La Liga áskilur sér rétt til að framlengja þessar ásakanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×