Fótbolti

Eigendur City bæta félagi í safnið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Palermo komst upp úr C-deildinni á Ítalíu í vor.
Palermo komst upp úr C-deildinni á Ítalíu í vor. Militello Mirto/NurPhoto via Getty Images

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að City Football Group, sem á meðal annars Englandsmeistara Manchester City, sé við það að ganga frá kaupum á Palermo á Ítalíu. Það verður ellefta félagið í eigu fjárfestingahópsins.

Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður hjá Manchester City, var á meðal þeirra sem stofnaði City Football Group til að halda utan um margvíslegar fjárfestingar hópsins í fótbolta víða um heim. Manchester City er flaggskip eignarhaldsfélagsins en félagið á meirihluta í níu öðrum fótboltafélögum.

Félögin eru New York City í Bandaríkjunum, Melbourne City í Ástralíu, Yokohama F. Marinos í Japan, Montevideo City Torque í Úrúgvæ, Girona á Spáni, Sichuan Jiuniu í Kína, Mumbai City í Indlandi, Lommel í Belgíu og Troyes í Frakklandi.

Ítalskt lið er nú að bætast í safnið eftir því sem kemur fram í ítölskum fjölmiðlum. Greint er frá því að aðeins eigi eftir að greiða úr forgangsatriðum áður en City Football Group eignast lið Palermo á Sikiley.

Palermo komst upp í B-deildina á Ítalíu, næst efstu deild, fyrr í vor. Félagið varð gjaldþrota árið 2019 og var sent niður í D-deild. Palermo átti góðu gengi að fagna fyrir fáeinum árum og varð ítalskur bikarmeistari árið 2011.

Luca Toni, Fabio Grosso, Paulo Dybala, Edinson Cavani og Andrea Barzagli eru á meðal leikmanna sem gerðu garðinn frægan með liðinu á fyrsta áratug 21. aldarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×