Stjórnarfrumvarp að nýjum heildarlögum um loftferðir var flutt af Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra. Sagði hann í framsögu að því væri ætlað að skapa flugsamgöngum nýja og uppfærða lagaumgjörð sem taki mark af nútímakröfum og alþjóðlegum skuldbindingum á þessu sviði.
Þótt almenn sátt hafi ríkt um þingmálið var þó deilt um það ákvæði sem heimilar ráðherra að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli og að þær reglur séu settar ofar skipulagsvaldi sveitarfélaga.
„Skipulagsreglur flugvalla trompa skipulag sveitarfélaga, aðal- og deiliskipulag, í tengslum við flugöryggi,“ sagði Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður í samtali við fréttastofu um lagabreytinguna en hann var framsögumaður málsins í umhverfis- og samgöngunefnd.
En getur lagabreytingin haft áhrif í deilum um Reykjavíkurflugvöll, til dæmis í yfirstandandi deilum Isavia og borgar um skipulag nýs hverfis í Skerjafirði?
„Já. Klárlega,“ svarar Njáll Trausti enda gangi skipulagsreglur framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga á sviði flugöryggis.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sem stóð einn að minnihlutaáliti, sagði að þetta fæli í sér víðtækt afnám á skipulagsvaldi sveitarfélaga og tók þannig undir afstöðu Sambands sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar, sem í umsögnum gerðu verulegar athugasemdir.
„Nái breytingin fram að ganga mun hún kollvarpa því skipulagsvaldi sem sveitarfélög hafa yfir flugvöllum innan eigin staðarmarka,“ segir í umsögn borgarinnar, sem fráfarandi meirihluti Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna skrifaði undir.
„Dapurlegt er að í athugasemdum í greinargerð frumvarpsins eru ekki færð fram nein rök fyrir því að nauðsynlegt sé að víkja frá því meginsjónarmiði skipulagslaga um að ákvörðunartaka í skipulagsmálum eigi að vera sem næst þeim sem málið varðar. Umrætt ákvæði er ekki bara óeðlileg og gróf aðför að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga - heldur er hún algjörlega án knýjandi eða málefnalegra ástæðna,“ segir ennfremur í umsögn borgarinnar.
Samband íslenskra sveitarfélaga lagðist einnig gegn málinu.
„Að mati sambandsins er hér um að ræða afar íþyngjandi inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga sem sveitarfélögin geta á engan hátt sætt sig við. Hér er tilefni til að minna á að skipulagsvaldið er hornsteinn sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga,“ segir í umsögn þess.
Alþingi kom þó til móts við áhyggjur Sambands sveitarfélaga og borgarinnar með því að bæta inn ákvæði þess efnis að hlutaðeigandi sveitarfélag fengi, ásamt Samgöngustofu og rekstraraðila flugvallarins, aðild að starfshópi ráðherra sem annaðist gerð tillögu að reglunum. Ráðherra skipar formann starfshópsins án tilnefningar.
„Markmið starfshópsins skal vera að tillaga að skipulagsreglum tryggi flugöryggi með fullnægjandi hætti með sem minnstum takmörkunum á skipulag þeirra svæða í kringum flugvöllinn sem reglurnar taka til,“ segir í ákvæðinu.
„Telur meirihlutinn að með þessum hætti megi tryggja sveitarfélögum beina þátttöku í undirbúningi og gerð skipulagsreglnanna og að skipulagsreglurnar feli ekki í sér meiri takmarkanir á skipulagi svæða í nágrenni flugvalla en nauðsynlegt er vegna flugöryggissjónarmiða,“ segir í útskýringum.
Lagaákvæðið sem setur skipulagsreglur flugvalla ofar skipulagsvaldi sveitarfélaga fór svona í gegn:
„Sveitarfélögum ber að gæta þess að skipulagsáætlanir þeirra og aðrar ákvarðanir á grundvelli skipulagslaga samræmist skipulagsreglum flugvalla frá því að skipulagsreglurnar taka gildi. Þá skulu skipulagsáætlanir sveitarfélaga að fullu samræmdar skipulagsreglum flugvallar innan fjögurra ára frá gildistöku reglnanna.“
Lögin voru samþykkt með fimmtíu samhljóða atkvæðum en sex þingmenn sátu hjá.