Þetta helst í kvöldfréttum Stöðvar 2 en jafnframt segjum við frá því að sveitarstjóri á Vestfjörðum segir óviðunandi að farþegaferjan Baldur, sem siglir frá Snæfellsnesi yfir Breiðafjörð, bili ítrekað með tilheyrandi röskun á samgöngum. Farþegar sátu fastir í meira en fimm tíma vegna bilunar í morgun.
Í bráðabirgðaskýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um flugslysið í Þingvallavatni kemur fram að Neyðarlínunni hafi borist stutt símtal frá einum farþeganna rétt fyrir hádegi 3. febrúar. Þar mátti heyra í einhverjum í neyð en fljótlega rofnaði sambandið. Einnig má sjá í skýrslunni að flugvélin virðist fljúga í mjög lítilli hæð yfir Þingvallavatni í um sjö sekúndur áður en hún hafnar í vatninu.
Prófessor í stjórnmálafræði segir það ekki koma á óvart að Logi Einarsson ætli sér að hætta sem formaður Samfylkingarinnar í haust. Hann telur að Dagur B. Eggertsson og Kristrún Frostadóttir hafi bæði burði til þess að taka við formennsku í flokknum.
Og okkar maður, Magnús Hlynur er líka á ferð og flugi um landið að sækja jákvæðar og skemmtilegar fréttir af mönnum og málleysingjum. Hvar skyldi hann verða niðurkomin núna? Við skulum komast að því.