Fram kom í fréttum Stöðvar 2 að strandveiðarnar hafi verið að gefa óvenju vel af sér þetta sumarið. Miðað við leyfðan dagskammt og það fiskverð sem er þessa dagana þá er hver róður að gefa að jafnaði í brúttótekjur um eða yfir þrjúhundruð þúsund krónur eftir daginn.

Meðalafli úr róðri er núna um 50 prósentum meiri en á sama tíma í fyrra og þorskverð um fjórðungi hærra, samkvæmt tölum frá Landssambandi smábátaeigenda.
„Þetta eru algjör met. Við höfum verið að slá aflamet per dag aftur og aftur og alveg ljóst að það er fullt af fiski á miðunum. Við þurfum bara að fá það viðurkennt,“ segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, og segir sorglegt að þetta virðist fara framhjá vísindamönnum.
„Því að upplifun manna á miðunum, hún er ekki í neinu samræmi við það sem Hafró er að segja; annarsvegar að stofninn sé í rosalega góðu lagi, og hins vegar að það þurfi að skera niður veiðiheimildir.“
Svo mikið er víst, strandveiðiflotinn er á sex vikum búinn með um sextíu prósent kvótans.
„Hann gæti bara klárast fyrir byrjun ágúst, miðað við þetta áframhald,“ segir Arthur.

Listi Fiskistofu yfir aflahæstu hafnir, með Patreksfjörð, Bolungarvík og Ólafsvík á toppnum, sýnir að mest hefur veiðst vestanlands, en Arthur segir alvarlegast ef önnur strandveiðisvæði verða útundan.
„Sérstaklega náttúrlega svæðið fyrir norðan og norðaustan. Þar er bara rétt að byrja að fiskast núna.“

Hann segir bara eitt til ráða:
„Ég bara hika ekkert við að heimta meiri kvóta, eða meiri aflaheimildir. Því að smábátaútgerðin hefur aldrei átt, og hún átti aldrei neina sök í því að hér þurfti að fara að takmarka veiðar. Þetta voru stóru skipin, stórútgerðin, sem á allan heiðurinn af því.
Og fyrir vikið þá á að koma öðruvísi fram við smábátaútgerðina, hvort sem það heitir strandveiðar eða aðrar veiðar. Og þær eiga að njóta forgangs vegna forsögu mála,“ segir formaður Landssambands smábátaeigenda.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér er listi Fiskistofu í heild yfir löndunarhafnir á strandveiðunum:
Löndunarhöfn |
Afli úr sjó kg |
Patreksfjörður |
687.852 |
Bolungarvík |
542.020 |
Ólafsvík |
532.304 |
Arnarstapi |
404.773 |
Hornafjörður |
398.759 |
Rif |
336.586 |
Sandgerði |
311.831 |
Skagaströnd |
296.326 |
Suðureyri |
254.887 |
Tálknafjörður |
249.602 |
Norðurfjörður |
227.026 |
Grundarfjörður |
220.604 |
Siglufjörður |
217.167 |
Stykkishólmur |
152.555 |
Húsavík |
130.637 |
Akranes |
108.872 |
Bakkafjörður |
101.073 |
Þorlákshöfn |
100.469 |
Bíldudalur |
94.727 |
Djúpivogur |
90.689 |
Þingeyri |
79.258 |
Vestmannaeyjar |
78.360 |
Grindavík |
70.369 |
Borgarfjörður eystri |
68.741 |
Flateyri |
68.399 |
Neskaupstaður |
68.301 |
Grímsey |
64.873 |
Dalvík |
61.044 |
Sauðárkrókur |
60.920 |
Hólmavík |
53.642 |
Drangsnes |
47.762 |
Þórshöfn |
43.834 |
Raufarhöfn |
35.245 |
Hofsós |
28.535 |
Stöðvarfjörður |
27.338 |
Brjánslækur |
24.780 |
Akureyri |
22.201 |
Hafnarfjörður |
20.363 |
Vopnafjörður |
18.534 |
Kópasker |
15.321 |
Breiðdalsvík |
10.342 |
Reykjavík |
4.707 |
Ólafsfjörður |
4.132 |
Seyðisfjörður |
3.993 |
Hrísey |
3.816 |
Eskifjörður |
595 |
Mjóifjörður |
251 |
Samtals |
6.444.415 |