Viðskipti innlent

Svika­póstar sendir á Símnetnet­föng í nafni Borgunar

Atli Ísleifsson skrifar
Ábendingarnar sem borist hafa síðustu daga nema hundruðum, en svikapóstarnir hafa sérstaklega verið sendir á netföng sem enda á @simnet.is.
Ábendingarnar sem borist hafa síðustu daga nema hundruðum, en svikapóstarnir hafa sérstaklega verið sendir á netföng sem enda á @simnet.is. Aðsend

Mikið álag hefur verið á þjónustuveri SaltPay síðustu daga vegna símtala frá fólki sem hefur fengið tölvupósta og skilaboða frá svikahröppum. Ábendingarnar sem borist hafa síðustu daga nema hundruðum og hafa þær að stórum hluta borist frá fólki með netföng sem enda á @simnet.is.

Í tilkynningu frá SaltPay segir að svikapóstarnir sem um ræðir séu sagðir vera frá Borgun, forvera SaltPay. Í þeim komi fram að greiðsla frá viðtakanda hafi ekki staðist öryggisathugun og hafi henni því verið frestað.

„Neðst í póstinum stendur að greiðslan sé vegna gistingar og að kaupmaðurinn sé Síminn. Í póstinum er hlekkur þar sem viðtakandi á að gefa upp kortanúmer og öryggisnúmer greiðslukorts. Sé það hins vegar gert þá á viðkomandi það á hættu að háar fjárhæðir verði teknar út af kortinu í kjölfarið.

Sérfræðingar SaltPay hvetja fólk til að fara gætilega á næstu dögum. Búast megi við áframhaldandi svikasendingum af þessu tagi þar sem dæmi eru um að fólk hafi tapað umtalsverðum fjárhæðum eftir að hafa látið gabbast. Það sé því eftir nokkru að slægjast fyrir svikarana. Öryggisteymi hér á landi hafa óskað eftir að lokað verði á vefsíðurnar sem vísað er á í póstunum.

SaltPay vill ítreka að fyrirtækið biður aldrei um kortaupplýsingar í tölvupósti, SMS eða símtali. Þau sem fá senda pósta af þessu tagi eru hvött til að opna þá ekki og enn síður smella á hlekki í þeim og gefa upp kortaupplýsingar. Einnig vill SaltPay hvetja fólk til að vara sig á öllum óumbeðnum skilaboðum, hringingum eða tölvupóstum þar sem óskað er eftir kortaupplýsingum. Best er að eyða póstinum eða smáskilaboðunum strax,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×