Lögreglan í Uvalde hefur setið undir harðri gagnrýni fyrir viðbrögð sín við skotárásinni sem kostaði nítján börn og tvo kennara lífið 24. maí. Heil klukkustund leið frá því að lögreglumenn komu á vettvang þangað til þeir réðust inn í skólastofu og skutu byssumanninn til bana. Á meðan reyndu börnin inni í stofunni í örvæntingu að hringja í neyðarlínu og biðja um hjálp.
Steve McCraw, yfirmaður almannavarna Texas, bar vitni fyrir nefnd öldungadeildar ríkisþings Texas, um árásina og viðbrögð lögreglu við henni í dag. Þar sagði hann viðbrögðin hafa verið hörmulegt klúður.
Þremur mínútum eftir að byssumaðurinn kom inn í skólann hafi nógu margir lögreglumenn verið komnir á staðinn til þess að stöðva hann. Þess í stað biðu vopnaðir lögregluþjónarnir úti á gangi í um klukkustund. Það var á endanum sérsveit landamæravarða sem réðst inn og skaut morðingjann.
McCraw sagði ennfremur að Pete Arredondo, lögreglustjóri Uvalde-skólaumdæmisins og yfirmaður aðgerða á vettvangi, hefði kosið að setja líf lögreglumanna sinna ofar lífum barnanna í skólanum.
Alríkis- og ríkisyfirvöld í Texas rannsaka nú viðbrögð lögreglunnar við skotárásinni.
Voru ekki í talstöðvarsambandi
Fjölmiðlar í Texas komust yfir upptökur af árásinni og birtu fréttir sem byggðust á henni og fleiri gögnum í gær. Samkvæmt upplýsingum þeirra kom byssumaðurinn inn í skólann klukkan 11:33 að staðartíma. Ellefu lögreglumenn voru komnir á staðinn innan þriggja mínútna. Lögreglumaður með skotheldan skjöld mætti þangað klukkan 11:52.
Arredondo hafði áður sagt fjölmiðlum að byssumaðurinn hefði haldið uppi stanslausri skothríð á lögreglumenn sem hafi aðeins verið vopnaðir skammbyssum. Lögreglustjórinn virðist hafa gert tilraun til þess að ræða við byssumanninn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Það var ekki fyrr en klukkan 12:50 sem lögreglumenn brutust inn í skólastofuna þar sem morðinginn hafði hreiðrað um sig.
Komið hefur fram að Arredondo hafi ekki fengið upplýsingar um símtöl barnanna í neyðarlínu á meðan á umsátrinu stóð. Hann hafi því staðið í þeirri trú að ekki væri lengur virk hætta af byssumanninum. Sjálfur hefur hann sagt að hann hafi ekki litið á sig sem yfirmann á vettvangi og að hann hafi búist við því að einhver annar stýrði aðgerðunum.
McCraw staðfestir á nefndarfundinum í ríkisþingi Texas í dag að Arredondo hefði ekki verið með talstöð sína á sér. Þar að auki hafi talstöðvar lögreglumanna ekki virkað inni í skólanum. Aðeins talstöðvar landamæravarðanna hafi virkað þar.
Þá sagði McCraw að ekki hafi verið hægt að læsa hurðinni á skólastofunni þar sem morðinginn var innilokaður með börnunum. Það stangast á við fullyrðingar um að landamæraverðir hafi þurft að fá lykil hjá húsverði til að komast loks inn í skólastofuna.