Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá fjölskyldur hvalveiðimanna og gamla starfsmenn Hvals í hópi þeirra sem fylgdust með brottför hvalbátanna, og auðvitað forstjórann, Kristján Loftsson, sem svaraði þeirri spurningu játandi að þetta væri stór dagur.

Hann sagði ýmsar ástæður fyrir því að ekki hefði tekist að veiða hval frá því haustið 2018 sem hefðu haldið skipunum í landi.
„En þetta er nú orðið vonandi betra ástand núna,“ sagði Kristján.
Byrjað var á því að losa landfestar Hvals 9 sem lá utan á Hval 8. Upphafið var þó heldur neyðarlegt fyrir Faxaflóahafnir en dráttarbáturinn Leynir réð ekki við að draga hvalbátinn frá í vestangjólu, sem kom þvert á skipið. Fór svo að Hval 9 rak hratt til baka.
Um borð í Hval 8 voru menn snöggir til og náðu að koma dekki á rekkverkið rétt áður en árekstur varð en Hvalur 9 rakst þó einnig utan í skuttogarann Sigurborgu.

Öflugri dráttarbátur var fenginn á vettvang, Haki, og náði hann að koma báðum hvalbátunum hnökralaust frá svo þeir gætu siglt út áleiðis á miðin. Langreyðarkvóti ársins dugar vel, að mati forstjóra Hvals.
„Tæpir tvöhundruð hvalir. Við veiðum það aldrei, sko.
En þetta fer bara eftir veðri. Ef það er mikið af brælum, þá veiðum við minna. Ef það er gott veður, þá er meiri veiði. Þetta er tiltölulega einfalt, sko,“ segir Kristján, sem gerir ráð fyrir að vertíðin standi fram í síðari hluta septembermánaðar.
En hvað er að segja af markaði fyrir hvalkjötið?
„Það er ekkert vesen með það.“
-Engar birgðir?
„Ég veit ekki af hverju þið haldið það. Þið eruð alltaf að messa um það, þessir fréttamenn,“ svarar Kristján Loftsson.

Búist er við að hvalbátarnir stefni á hvalaslóð djúpt suðvestur af Garðskaga, um það bil 150 sjómílur frá landi, og þeir gætu verið búnir að skjóta fyrstu hvalina í fyrramálið. En hvenær býst forstjóri Hvals við fyrsta hvalnum í Hvalfjörð?
„Ég veit það ekki. Spáin er nú ekkert allt of góð. En það er aldrei að vita, sko.“
-Gæti það orðið fyrir helgi?
„Já, já. Það verður fyrir helgi.“
Og Hvalur 8 kvaddi Reykjavíkurhöfn með alvöru gufuskipsflauti um strompinn, sem heyra má hér í frétt Stöðvar 2: