Íslenska karlalandsliðið í körfubolta hóf undirbúning fyrir komandi verkefni í undankeppni HM 2023 í dag. Liðið leikur gegn Hollandi í Ólafssal á föstudaginn kemur en Ísland hefur þegar tryggt sér farseðilinn í næstu umferð undankeppninnar en þó gæti skipt sköpum að enda riðilinn vel til að taka sem flest stig með sér í næstu umferð.
Hinn 31 árs gamli Ægir Þór er einn af íslensku landsliðsmönnunum sem á eftir að ákveða framtíð sína. Hann var síðast á mála hjá Gipuzkoa Basket Spáni en hann er nú án félags og gæti verið á heimleið. Hafa bæði Njarðvík og Íslandsmeistarar Vals verið nefnd til sögunnar.
„Eigum við ekki að segja að það sé 50/50. Það eru einhverjir möguleikar í gangi núna erlendis en það er eðlilegt að halda möguleikunum opnum og sjá hvað gerist. Ég hef reynt að einbeita mér að þessum leik (gegn Hollandi) en að setjast niður með einhverjum liðum. Ég hef náð að gera bæði og halda þessu opnu.“
„Mörg lið sem hafa samband, eru kannski meira að athuga hvernig stemmningin er, sum eru graðari en aðrir í þessu og vilja fá svör strax en ég held það sé mikilvægt að slaka á og sjá hvað gerist í plani A hjá okkur, hvort það gerist eitthvað í útlöndum,“ sagði Ægir Þór að endingu.
Viðtalið við Ægi Þór má sjá í heild sinni hér að ofan.