Lagt var hald á síma Johns Eastman þegar hann kom út af veitingastað á miðvikudag. Sama dag gerðu alríkisfulltrúar húsleit og afhentu stefnur í tengslum við rannsókn á árás stuðningsmanna Trump á bandaríska þinghúsið 6. janúar í fyrra.
Hvork FBI né bandaríska dómsmálaráðuneytið hafa tjáð sig um málið. Í kæru sem Eastman lagði fram til að fá haldlagningunni hnekkt í Nýju-Mexíkó kemur fram að hann hafi verið neyddur til þess að opna símann með fingrafarsskanna, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Í kæru sinni segir Eastman að á símanum séu meðal annars að finna tölvupósta sem hafa verið bitbein hans og þingnefndar sem rannsakar árásina á þinghúsið um margra mánaða skeið. Eastman heldur því fram að hann sé bundinn trúnaði á milli lögmanns og skjólstæðings um efni tölvupóstanna
Eastman þessi skrifaði minnisblað um hvernig hann taldi að Mike Pence, þáverandi varaforseti, gæti neitað að staðfesta kosningasigur Biden þegar báðar deildir þingsins komu saman 6. janúar 2021. Til þess þyrftu ríkisþingmenn repúblikana í nokkrum ríkjum að samþykkja hóp falskra kjörmanna í stað þeirra réttkjörnu.
Hann var einnig á meðal ræðumanna á útifundi Trump með stuðningsmönnum sínum í Washington-borg að morgni þess dags. Hluti mannfjöldans gekk síðan að þinghúsinu og braust þangað inn með valdi.
Tölvupóstar sem hafa þegar verið birtir í tengslum við rannsókn þingnefndarinnar benda til þess að Eastman hafi síst iðrast gjörða sinna, jafnvel eftir að múgurinn réðst á þinghúsið og lífverðir þurftu að fylgja Pence út úr sal öldungadeildarinnar.
„Þökk sé kjaftæðinu þínu er núna setið um okkur,“ skrifaði Greg Jacob, einn ráðgjafa Pence bálillur í tölvupósti til Eastman 6. janúar. Eastman svaraði með því að orsök árásarinnar væri að Pence hefði ekki gert það sem hann og Trump vildu, að því er segir í frétt Washington Post.