Erlent

Græn­þvottur stór­fyrir­tækja opin­beraður

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Konur í Bólivíu safna flöskum til endurvinnslu. Mynd tengist umfjöllun ekki beint.
Konur í Bólivíu safna flöskum til endurvinnslu. Mynd tengist umfjöllun ekki beint. EPA/Martin Alipaz

Ný skýrsla opinberar misvísandi framsetningu stórfyrirtækja á umhverfisáhrifum umbúða sinna eða framleiðslu. Í skýrslunni er til dæmis fjallað um fyrirtæki Kim Kardashian, Skims og gosdrykkjaframleiðandann Coca-cola.

Skýrsla þessi kemur frá stofnuninni Changing Markets Foundation en stofnunin vinnur að því að hraða á lausnum til aukinnar sjálfbærni í samvinnu við frjáls félagasamtök. Stofnunin gagnrýnir með skýrslunni tilhneigingu fyrirtækja til grænþvottar eða öllu heldur að segjast framleiða varning á umhverfisvænni hátt en raun ber vitni.

Í skýrslunni má til dæmis finna umfjöllun um umbúðir Skims, fyrirtæki Kim Kardashian en á undirfataumbúðum frá fyrirtækinu er tekið fram að þær séu ekki úr plasti þó smáa letrið leiði annað í ljós. Einnig eru yfirlýsingar Coca-cola varðandi eigin plastumbúðir teknar fyrir í skýrslunni en fyrirtækið segist hafa eytt mörgum milljónum dollara í þróun og notkun á umhverfisvænna plasti sem kallað er „marine plastic.“ Gosdrykkjaframleiðandinn tekur þó ekki fram að hann standi fremstur í flokki þegar kemur að plastmengun á heimsvísu. Þetta kemur fram í umfjöllun Guardian um málið.

Stórfyrirtækin Unilever, Procter og Gamble og framleiðandi Mentos eru einnig gagnrýnd fyrir það að selja umbúðir og vörur sem eigi að vera umhverfisvænni en þegar á hólminn er komið sé varningurinn ekki endurvinnanlegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×